Teva gert að greiða 10,6 milljarða

AFP

Ísraelska lyfjafyrirtækið Teva, eigandi Actavis, hefur gert dómsátt við Oklahoma-ríki upp á 85 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 10,6 milljarða króna, vegna ópíóðafaraldurs sem geisað hefur þar líkt og víða í Bandaríkjunum. 

Samkomulagið kemur í kjölfar samkomulags sem Pur­due Pharma, sem er í eigu Sackler-fjöl­skyld­unn­ar, gerði við Okla­homa-ríki í mars en ríkið sakar lyfjafyr­ir­tækin um að bera ábyrgð á dauða þúsunda íbúa rík­is­ins. Hluti af sam­komu­lag­inu fel­ur í sér að Pur­due Pharma mun kosta stofn­un miðstöðvar sem rann­sak­ar fíkn en fyr­ir­tækið fram­leiðir ópíóíðalyfið OxyCont­in.

Ríkissaksóknari í Oklahoma, Mike Hunter, segir í tilkynningu að með samkomulaginu við lyfjafyrirtækin sé ríkið að gera samkomulag við lyfjafyrirtækin um að þau beri ábyrgð á ítrekuðum ofskömmtunum íbúa á ópíóíðalyfjum sem og fíkn fólks í slík lyf. Peningarnir verða nýttir í baráttunni gegn ópíóðavandanum í ríkinu. 

Margir þeirra sem ánetjast verkjalyfjum enda í heróíni vegna þess …
Margir þeirra sem ánetjast verkjalyfjum enda í heróíni vegna þess að það er mun ódýrara en ópíóíðalyf. AFP

Á morgun mun þriðji lyfjaframleiðandinn, Johnson & Johnson, fara fyrir dóm í Oklahoma en fyrirtækið er borið svipuðum sökum og hin tvö, að hafa markaðssett verkjalyfin með vafasömum aðferðum þrátt fyrir að vita hversu mikil hætta var á að fólk ánetjaðist þeim. 

Ofskömmtun verkjalyfja og heróíns, sem margir þeirra sem ánetjast verkjalyfjum nota, hefur aukist gríðarlega undanfarna tvo áratugi. Tæplega 400 þúsund manns hafa látist af ofskömmtun lyfja að því er fram kemur í tölum frá Centers for Disease Control and Prevention (CDC).

mbl.is