Vill þessi stétt vakna á morgun?

Ekki er það að ástæðulausu að Brennpunkt-þáttur NRK í kvöld …
Ekki er það að ástæðulausu að Brennpunkt-þáttur NRK í kvöld er bannaður yngri en 15 ára og mætti raunar deila um hvort 18 ár teldust ekki heppilegri mörk miðað við þau brot sem kynnt voru í kvöldfréttum NRK. Ljósmynd/Skjáskot af kynningu NRK á Brennpunkt-þætti kvöldsins

Hún hefur kallað sig Amalie, Marie, Kristine og margt fleira og kemur enn ekki fram undir réttu nafni. Hún er heimspekinemi við norskan háskóla sem lagði á sig fimm ára vinnu við að þykjast vera lærlingur og heimsækja undir því yfirskini norska svínabændur. Myndavél og hljóðnema faldi hún í hnappagati og rafhlöðuna fyrir þessi tæki hafði hún einfaldlega í brjóstahaldara sínum.

Hún kallar sig Norun Haugen í norskum fjölmiðlum af ótta við hefndaraðgerðir því „í norska kjötiðnaðinum þekkjast margir vel“ segir Haugen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK sem kynnti Brennpunkt-þátt kvöldsins í fréttum sínum í kvöld en titill hans er einfaldlega Leyndardómar grísaiðnaðarins eða Griseindustriens hemmeligheter.

Gelding með bitlausum hníf án deyfingar

Haugen hefur haldið sig algjörlega frá samfélagsmiðlum öll þau ár sem rannsókn hennar hefur staðið, ekki eignast kærasta, forðast samnemendur sína og yfirhöfuð gætt þess að mynda engin náin tengsl. „Hvernig kemst ég hjá því að verða afhjúpuð?“ segist hún hafa spurt sig daglega. Það tókst henni og afrakstur þeirrar vinnu lítur dagsins í ljós, upptökur í hljóði og mynd frá tíu norskum svínabúum og fimmtán sláturhúsum. 

Á myndefni Haugen sést svínabóndi gelda grís ódeyfðan með nánast bitlausum hníf og rífa eistu hans af meðan dýrið berst um og öskrar af öllum mætti. „Þessi hnífur er svo sem ekki nógu beittur en hann dugir alveg,“ heyrist bóndinn segja á upptökunni. Annar heyrist hlæja dátt eftir að hafa misþyrmt nokkrum grísum alvarlega og segir að lokum „Við nennum ekkert að sinna þeim, þeir verða hvort sem er flestir dauðir á morgun.“ Sá þriðji segir „Hér mætti vel gera góða hryllingsmynd bara á einum degi,“ og svo, eins kaldhæðnislega og það hljómar, „ég missti klárlega öll leyfi til að koma nálægt dýrum aftur ef einhver væri með falda myndavél hérna.“

Líklega munu þau orð hans rætast því norska Matvælaeftirlitið er þegar á leið í heimsókn í öll þau svínabú sem koma við sögu og hafa að minnsta kosti tvær kærur frá Nortura-sláturhúsinu þegar verið lagðar fram áður en Brennpunkt-þátturinn er hafinn.

Formaður norsku bændasamtakanna mætti í myndver NRK í kvöldfréttum fyrir stundu og ræddi við Espen Aas fréttamann. Voru hans helstu svör þau að auðvitað yrði það litið alvarlegum augum kæmi það í ljós að norskir bændur gerðust brotlegir við dýraverndarlöggjöf landsins. NRK bauð átta norskum svínabændum að koma í kvöldfréttirnar og ræða málin en þeir reyndust allir uppteknir í kvöld.

Vafalítið spyr margur Norðmaðurinn sig þess í kvöld hvort norskir svínabændur séu yfirhöfuð sérstaklega áhugasamir um að vakna í fyrramálið.

NRKII

NRKIII

Dagbladet

VG (um kærurnar frá Nortura)

Nationen (einnig um kærurnar)

mbl.is

Bloggað um fréttina