Vísað úr landi að lokinni meðferð

AFP

Afgana, sem heldur því fram að hann hafi heyrt raddir sem sögðu honum að keyra niður hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur, er gert að fara í meðferð hjá geðlækni og að því loknu að fara úr landi í Svíþjóð. 

Þetta er niðurstaða héraðsdóms í Malmö yfir manni sem reyndi að keyra niður tíu hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur á nýársdag. Samkvæmt frétt The Local kom maðurinn til Svíþjóðar í nóvember 2015 en þá var hann 16 ára gamall. Að lokinni meðferð verður hann sendur aftur til Afganistan og meinað að koma til Svíþjóðar næstu tíu árin.

Að sögn dómarans leiddi geðrannsókn í ljós að maðurinn glímir við alvarleg andleg veikindi en samt sem áður sé hann sekur um hættulegt athæfi sem setti aðra í hættu. Auk þess sem hann stal bílnum sem hann ók.  

Geðlæknirinn sem rannsakaði manninn segir að hann sé með geðrofssjúkdóm og þjáist bæði af alvarlegu þunglyndi og ofskynjunum. Hann taldi hins vegar að maðurinn gerði sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna. Saksóknari fór fram á að maðurinn yrði dæmdur fyrir tilraun til manndráps en á það féllst dómarinn ekki. 

Maðurinn segir sjálfur að hann hafi alls ekki ætlað sér að drepa, særa eða hóta einhverjum. Það að hafa ekið inn í hóp fólks hafi verið eitthvað sem hans innri raddir hafi skipað honum að gera.  

Tímabundið dvalarleyfi mannsins í Svíþjóð rann út í apríl og hann hafði ekki reynt að fá það framlengt. Lítil tengsl hans við Svíþjóð valdi því að hann fær ekki framlengingu og verður gert að yfirgefa landið. Fram kom við réttarhöldin að maðurinn hafi fengið lítinn stuðning frá yfirvöldum og heilbrigðisþjónustunni vegna veikinda sinna í Svíþjóð og hafi búið við mjög slæmar aðstæður.  

<a href="https://www.thelocal.se/20190625/lund-car-rampage-afghan-driver-was-hearing-voices" target="_blank"><strong>Frétt The Local</strong></a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert