Lést er málmrör stakkst í auga hennar

Slysið sýnir þær mögulegu hættur sem stafað geta af málmrörum.
Slysið sýnir þær mögulegu hættur sem stafað geta af málmrörum. Ljósmynd/Isabela Kronemberger

Andlát sextugrar breskrar konu, sem datt heima hjá sér og hlaut alvarlegan heilaskaða eftir að sogrör úr málmi stakkst inn í auga hennar, sýnir þær mögulegu hættur sem stafað geta af málmrörum.

Slík rör njóta sífellt aukinna vinsælda á sama tíma og víða er farið að banna notkun á einnota rörum úr plasti.

Konan, Elena Struthers-Gardner að nafni, hafði áður verið knapi og var gjörn á að detta vegna meiðsla sem hún hlaut við þá iðju þegar hún var 21 árs. Hún datt á heimili sínu 22. nóvember á síðasta ári og rakst þá sogrörið, sem var um 25 sentimetra langt, inn um auga hennar.

Samkvæmt aðstoðardánardómstjóra í málinu skipti það ekki aðeins máli að rörið var úr stáli, heldur í hvernig íláti rörið var þegar Struthers-Gardner féll á það með þessum hrikalegu afleiðingum. Rörið var nefnilega í krukku með loki, eins konar Mason-krukku, sem gerði það að verkum að það haggaðist ekki við höggið.

Bann við einnota plaströrum tekur gildi í Bretlandi í apríl á næsta ári, en þetta alþjóðlega átak gegn plaströrum hefur hlotið gagnrýni aðila í heilbrigðisþjónustu og umönnun fatlaðra, sem lýst hafa áhyggjum sínum af óbeygjanlegum, fjölnota rörum, svo sem úr málmi, og aðgangi að þeim fyrir fólk sem ekki getur drukkið án þeirra.

New York Times

mbl.is