Vilja Brexit sama hvað það kostar

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, virðist hafa meirihluta bresks almennings á …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, virðist hafa meirihluta bresks almennings á bak við sig þegar kemur að fyrirhugaðri útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. AFP

Meirihluti Breta er hlynntur því að Bretland gangi úr Evrópusambandinu (Brexit) 31. október sama hvað það þýðir. Jafnvel þó það fæli í sér að breska þingið verði leyst upp til þess að koma í veg fyrir að það geti komið í veg fyrir útgöngu án samnings.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ComRes gerði fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph, en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að til greina gæti komið að senda þingið heim til þess að greiða fyrir útgöngunni.

Spurt var um afstöðu fólks til þess hvort Johnson þyrfti að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu sama hvað það kostaði, þar á meðal ef það þýddi að leysa upp þingið ef þess gerðist þörf, til þess að hindra þingmenn í að stöðva útgönguna. Drjúgur helmingur, eða 54%, sögðust sammála þessu en 46% lýstu sig hins vegar ósammála.

Einnig var spurt um afstöðu fólks til þess hvort þingið væri í meiri takti við breskan almenning en Johnson og sögðust 62% vera því ósammála en 38% sammála. Þá sögðust 88% telja þingið vera úr takti við almenning og 89% sögðust telja flesta þingmenn hunsa vilja almennings varðandi útgönguna til þess að ganga eigin erinda.

mbl.is