Hætti við lögsókn vegna „hýrra“ rafmynta

BitCoin. Razumilov að nafni, pantaði rafmyntina BitCoin í gegnum smáforrit …
BitCoin. Razumilov að nafni, pantaði rafmyntina BitCoin í gegnum smáforrit frá Apple, en fékk þess í stað send 69 stykki af rafmyntinni GayCoin. AFP

Rússneskur karlmaður, sem sakaði tölvurisann Apple um að hafa gert sig samkynhneigðan með því að senda sér „hýrar“ rafmyntir með þeim afleiðingum að hann sneri sér að eigin kyni, hefur hætt við málsóknina. Hann segist hafa sætt áreitni og ofsóknum á netinu eftir að hann hóf málarekstur.

Maðurinn, Razumilov að nafni, pantaði rafmyntina BitCoin í gegnum smáforrit frá Apple, en fékk þess í stað send 69 stykki af rafmyntinni GayCoin. Sendingunni fylgdi miði sem á stóð: „Ekki dæma fyrr en þú prófar“. Razumilov segist hafa hugsað sem svo: „Hvernig get ég lagt dóm á eitthvað sem ég hef ekki prófað? Ég ákvað því að prófa að vera í sambandi við annan karlmann. Núna, tveimur mánuðum síðar hef ég átt í nánu samneyti við karlmenn og ég get ekki snúið til baka.“

Sapizhat Gusnieva, lögmaður Razumilovs sagði við AFP-fréttastofuna í dag að skjólstæðingur hennar hefði verið ofsóttur á netinu eftir að óprúttnir hefðu fundið út hver hann var og í kjölfarið hafi hann hætt við málið.  „Við búum í Rússlandi og þar eru þessi mál erfið,“ sagði hún. Razumilov ætlaði að fara fram á eina milljón rúblna í skaðabætur frá Apple, sem er um tvær milljónir íslenskra króna. 

Samkynhneigt fólk í Rússlandi býr ekki við sömu mannréttindi og aðrir þegnar landsins, en þar varðar við lög að „vera með áróður um samkynhneigð.“ Í þessu lagaákvæði felst m.a. að refsivert er að tala um eigin samkynhneigð eða annarra opinberlega. 

Gusnieva sagði að réttlætanlegt hefði verið að sækja Apple til saka í þessu máli þó að rafmyntin væri á vegum annars fyrirtækis. Apple hefði verið milliliður og samstarfsaðili þess sem sendi Razumilov „hýru“ rafmyntina.

mbl.is