„Óskiljanlegt og til skammar

Hilary Clinton er stödd í Bretlandi þar sem hún kynnir …
Hilary Clinton er stödd í Bretlandi þar sem hún kynnir nýja bók sem hún hefur ritað með dóttur sinni, Chelsea. AFP

Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að það sé til skammar að breska ríkisstjórnin hafi ekki birt skýrslu þingsins um möguleg afskipti Rússa af breskum stjórnmálum. Þingkosningar fara fram í Bretlandi í desember.

Ríkisstjórn Boris Johnson hefur áður neitað ásökunum um að hún sé að koma sér undan því að birta skýrsluna til þess að koma í veg fyrir að hneyksli yrði upplýst skömmu fyrir kosningar. „Allir þeir sem eru með kosningarétt í þessu landi eiga rétt á að sjá hvað kemur fram í skýrslunni áður en til kosninga kemur,“ sagði Clinton, sem tapaði fyrir Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum 2016, í viðtali við BBC Radio 4 en hún er stödd í Bretlandi í tengslum við útgáfu bókar. 

Clinton segir engan vafa leika á að Rússum sé mikið í mun að hafa áhrif á pólitískt landslag á Vesturlöndum.

„Mér finnst það óskiljanlegt að ríkisstjórn ykkar birti ekki skýrslu stjórnvalda um áhrif Rússa. Óskiljanlegt og til skammar,“ segir Clinton í viðtalinu. 

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fékk sé kollu af öli í …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, fékk sé kollu af öli í gær með stuðningsmönnum sínum. AFP

Fram kom á breska þinginu í haust að skýrslan, sem er unnin af leyniþjónustu- og öryggisnefnd þingsins, hafi verið send forsætisráðherra til staðfestingar 17. október. Er talið að þar komi fram hvernig Rússar reyndu að hafa áhrif á Brexit-kosningarnar 2016 og þingkosningarnar 2017 með upplýsingafölsunum. 

Fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustunnar MI5 og formaður nefndarinnar, Jonathan Evans, telur að Johnson sé að reyna að tefja birtingu skýrslunnar fram yfir þingkosningar 12. desember. Hann hefur farið fram á að ríkisstjórnin útskýri hvers vegna skýrslan hefur ekki verið gerð opinber. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert