Tveir ungir drengir fengu að hitta goðin sín

Fótboltakappinn Cristiano Ronaldo.
Fótboltakappinn Cristiano Ronaldo. AFP

Tveir ungir drengir, sem lifðu af þegar jarðskjálfti gekk yfir Albaníu í síðasta mánuði, hittu á dögunum fótboltastjörnurnar Cristiano Ronaldo og Gianluigi Buffon.

Forsætisráðherra Albaníu, Edi Rama, fylgdi drengjunum tveimur, þeim Aurel Lala sem er sjö ára og Alesio Cakoni tíu ára til Rómar, höfuðborgar Ítalíu, hvar þeir hittu goðin.

Þeir Lala og Cakoni eru frá héraðinu Thumane sem varð hvað verst úti í jarðskjálftanum. Þeir stukku af svölum heimila sinna þegar þau hrundu til þess að bjarga sér. Rúmlega 50 manns létust í skjálftanum og um þrjú þúsund urðu fyrir meiðslum.

Lala missti systur sína og ömmu og Cakoni föður sinn og systur. Drengirnir voru fluttir á sjúkrahús. Þegar Rama heimsótti sjúkrahúsið heyrði hann um draum þeirra um að  hitta þá Ronaldo og Buffon sem báðir leika með Juventus í ítölsku meistaradeildinni.

Þeir Ronaldo og Buffon gáfu drengjunum áritaðar treyjur merktar þeim sjálfum og voru síðan teknar myndir af þeim öllum fjórum saman.

Breska ríkisútvarpið BBC og bandaríska dagblaðið Washington Post greina meðal annars frá þessu.

mbl.is