Greta Thunberg hæðist að Trump

Greta Thunberg.
Greta Thunberg. AFP

Sænski aðgerðarsinninn Greta Thunberg hefur breytt lýsingu sinni (e. bio) á samfélagsmiðlinum Twitter til að hæðast að Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Táningur sem er að vinna í reiðivandamálum sínum. Hangi með vinum og horfi á góða mynd,“ segir Greta nú í lýsingunni á sjálfri sér, en þar vitnar hún óbeint í orð Trumps um hana.

Bandaríska blaðið Times sæmdi Gretu í vikunni titlinum Manneskja ársins, titli sem Trump fékk sjálfur árið 2016. Útnefninguna hlýtur sá sem þykir hafa haft mest áhrif á atburði liðins árs, hvort sem er til góðs eða ills.  

Af því tilefni skrifaði Trump á Twitter að honum þætti útnefning Gretu „svo fáránleg“. „Greta verður að vinna í reiðivandamálum sínum og fara síðan og horfa á góða bíómynd með vinum. Slakaðu á, Greta,“ skrifar hann á Twitter.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump telur tíma sínum vel varið í að gagnrýna aðgerðasinnann unga, en í september deildi hann myndbandi af henni að ræða loftslagsmál af innlifun og skrifaði við myndbandið, í augljósri hæðni, að Greta liti út fyrir að vera hamingjusöm, ung stúlka sem hlakkaði til bjartrar og frábærrar framtíðar.

mbl.is