Ríkisstjórn Rússlands sagði af sér

Pútín forseti og Medvedev, nú fyrrverandi forsætisráðherra, saman í rússneska …
Pútín forseti og Medvedev, nú fyrrverandi forsætisráðherra, saman í rússneska þinginu í dag. AFP

Dímítrí Medvedev forsætisráðherra Rússlands og ríkisstjórn hans sögðu óvænt af sér í dag, einungis örfáum klukkustundum eftir að Vladimír Pútín forseti landsins kynnti umfangsmiklar breytingar sem hann ætlar sér að gera á stjórnarskrá landsins.

Breytingar eru sagðar leiða til þess að arftaki Pútíns verði valdaminni í forsetaembættinu en hann er í dag samkvæmt núverandi stjórnarskrá landsins, en Pútín þarf samkvæmt stjórnarskrá landsins að hætta sem forseti árið 2024 og má ekki bjóða sig fram aftur.

Fyrirhugaðar breytingar, sem Pútín kynnti í ræðu í Dúmunni í dag, munu færa völd frá forsetaembættinu og til þingsins og ríkisráðs landsins, en það síðarnefnda hefur ekki mikil formleg völd í dag. Pútín sagði að breytingarnar yrðu lagðar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Muni breyta valdajafnvægi í stjórnkerfinu

„Þessa breytingar, þegar þær taka gildi, munu kynna til sögunnar allmiklar breytingar, ekki bara á fjölda stjórnarskrárákvæða, heldur öllu valdajafnvæginu, framkvæmdarvaldinu, löggjafarvaldinu og dómsvaldinu,“ sagði í yfirlýsingu frá Medvedev er hann tilkynnti um afsögn sína og ríkisstjórnarinnar. „Í þessu samhengi hefur ríkisstjórnin í núverandi mynd sagt af sér,“ sagði forsætisráðherrann.

Stjórnarráð rússneska ríkisins í Moskvu.
Stjórnarráð rússneska ríkisins í Moskvu. AFP

Stjórnmálaskýrendur erlendra miðla segja ljóst að Pútín hafi tekið ákvörðunina um að ríkisstjórnin segi af sér, en ekki liggi fyrir nákvæmlega í hvaða tilgangi.

Pútín hefur falið Medvedev að taka við næstæðsta embætti þjóðaröryggisráðs Rússlands. Forsetinn sjálfur er þar æðsti maður.

Ríkisskattstjóri skipaður forsætisráðherra

Heimildir BBC herma að ráðherrar í ríkisstjórn Rússlands hafi ekki vitað af því að til stæði að tilkynna um afsögn ríkisstjórnarinnar í dag. „Þetta var algjörlega óvænt,“ segir einn heimildarmaður innan rússnesku stjórnarinnar.

Fram kemur í frétt New York Times að Mikhail V. Mishustin, lítt þekktur embættismaður, sem hefur verið ríkisskattstjóri Rússlands, hafi í kvöld verið skipaður nýr forsætisráðherra Rússlands. Ekki kemur skýrt fram hvort hann muni gegna embættinu til bráðabirgða eða frambúðar.

BBC

New York Times

mbl.is