Allir sem koma frá Kína sæti sóttkví

26 hafa smitast af kórónuveirunni í Hong Kong.
26 hafa smitast af kórónuveirunni í Hong Kong. AFP

Yfirvöld í Hong Kong hafa fyrirskipað að allir sem koma fá meginlandi Kína skuli sæta 14 daga sóttkví við komuna til landsins. Er þetta gert í þeirri von um að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. BBC greinir frá.

Allir ferðalangar frá Kína verða að vera í einangrun á hótelherbergjum eða dvelja á sérstökum svæðum sem yfirvöld hafa látið koma upp. Íbúar Hong Kong sem koma frá Kína þurfa að vera heima hjá sér í sóttkví.

Allir sem virða þessi tilmæli að vettugi geta átt yfir höfði sér sekt eða fangelsisdóm. Tugir þúsunda ferðlanga biðu í biðröðum við landamærin í borginni Shenzhen rétt fyrir miðnætti til að komast yfir til Hong Kong áður en tilmælin tóku gildi.

26 hafa greinst með kórónuveiruna í Hong Kong og einn hefur látist á meðan 31 þúsund hafa smitast í Kína og 717 látist. Þá hafa 270 tilfelli greinst utan Kína í 25 löndum og einn hefur látist á Filippseyjum.

Í dag komu þó jákvæðar fréttir frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni því svo virðist sem hægt hafi á útbreiðslu veirunnar í Kína á síðustu tveimur dögum, en yfirmaður stofnunarinnar segir þó varasamt að lesa of mikið úr þeim tölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert