Falsfréttir valda ótta í Hong Kong

Óttaslegnir íbúar í Hong Kong herja nú á matvöruverslanir í þeirri von að finna þar salernispappír. Ástæðan er falsfréttir um að slík munaðarvara sé að verða uppurin vegna kórónuveirunnar. 

Borgaryfirvöld biðla til íbúa um að halda ró sinni en um sjö milljónir búa í Hong Kong. Óttast margir þeirra að vöruskortur verði á ýmsum helstu nauðsynjum vegna veirunnar sem herjar á meginlandi Kína og víðar.

Myndskeið sem AFP-fréttastofan hefur fengið send sýna langar biðraðir þar sem grímuklæddir íbúar bíða með innkaupakerrur hlaðnar salernispappírsrúllum. Jafnvel hefur kastast í kekki milli fólks í röðinni enda tekur slík bið á jafnvel þolinmóðasta fólk.

Hrísgrjón og pasta eru líka afar vinsæl vara meðal þeirra sem eru farnir að hamstra. Lois Strange, breskur kennari í Hong Kong, segir að þetta hafi verið ótrúleg upplifun að fylgjast með fólki hlaupa um búðina í örvæntingafullri leit eftir einhverju til að hamstra.

„Það var troðfullt. Allir tóku eins margar klósettpappírsrúllur og þeir gátu. Pakkningu eftir pakkningu,“ segir Strange en henni tókst að ná í nokkrar rúllur áður en varan kláraðist.

„Ég átti bara eina rúllu eftir heima og ég varð að kaupa. En það er ekki þannig að ég hafi verið hrædd eins og allir aðrir.“

Í tilkynningu frá yfirvöldum í Hong Kong í gærkvöldi kemur fram að falsfréttir um vöruskort á hrísgrjónum og salernispappír hafi leitt til hræðslu meðal almennings um að kaupa slíkar vörur. Yfirvöld beina spjótum sínum að þeim sem skálda upp slíkar lygar og segja þá vera af hinu illa. Að það sé ekkert annað en illgirni sem fái fólk til þess á sama tíma og borgin berjist við farsótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert