Kórónuveiran komin til Danmerkur

Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfatnaði vegna kórónuveirunnar í Sjanghæ í Kína.
Heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfatnaði vegna kórónuveirunnar í Sjanghæ í Kína. AFP

Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefur borist til Danmerkur. Um er að ræða mann sem hafði snúið heim eftir að hafa verið á skíðum í norðurhluta Ítalíu.

„Maðurinn sem kom heim úr skíðafríi með eiginkonu sinni og syni 24. febrúar hefur síðan þá verið með hósta og hita,“ sagði í yfirlýsingu danskra heilbrigðisyfirvalda.

„Maðurinn greindist jákvæður en niðurstöður eiginkonu hans og sonar eru neikvæðar.“

Maðurinn hefur það tiltölulega gott, samkvæmt yfirlýsingunni, og hefur snúið aftur heim til sín þar sem hann verður í einangrun ásamt fjölskyldu sinni.

Að sögn sjónvarpsstöðvarinnar TV2 er maðurinn einn af starfsmönnum stöðvarinnar.

Kórónuveiran hefur breiðst út á Ítalíu og þar hafa 400 tilfelli greinst, flest í norðurhlutanum. Tólf hafa látist.

mbl.is