Fleiri dánir á Spáni en Kína

Spánn bættist í hóp þeirra ríkja þar sem fleiri hafa látist af völdum kórónuveirunnar en í fjölmennasta ríki heims, Kína. Alls eru 3.434 látnir á Spáni en staðfest dauðsföll þar í landi síðasta sólarhringinn eru 738. Aðeins á Ítalíu hafa verið staðfest fleiri dauðsföll en á Spáni en tala látinna nálgast sjö þúsund þar í landi. Í Kína hafa tæplega 3.200 látist af völdum veirunnar og Kína er enn það land þar sem flestir hafa smitast og um leið náð fullum bata. 

Í dag eru ellefu dagar liðnir frá því öllu var skellt í lás á Spáni og útgöngubanni komið á. Eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður á friðartímum. Alls hafa 47.610 veikst af kórónuveirunni á Spáni, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins. 

Leiðtogar helstu stofnana Evrópusambandsins hafa lýst samstöðu með Spáni á sama tíma og neyðarástandið versnar þar dag frá degi.

„Ég við að þið vitið að við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða ykkur — þið eruð ekki ein,“ segir for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar­inn­ar, Ursula von der Leyen, í myndskeiðsskilaboðum til spænsku þjóðarinnar. 

Charles Michel, for­seti leiðtogaráðs sam­bands­ins, segir í bréfi til spænsku þjóðarinnar að Evrópa standi með Spáni af heilum hug og ekkert verði til sparað til að aðstoða ríkið.

Forseti Evrópuþingsins, David Sassol, segir á Twitter að vandamálin og erfiðleikarnir sem Spánverjar standi frammi fyrir séu vandamál allra innan ESB. 

Alls eru íbúar Spánar 46 milljónir talsins og er ríkið fjórða stærsta hagkerfi Evrópu. Stjórnvöld á Spáni hafa reynt að útvega meiri varnarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk en 5.400 starfsmenn þess hafa greinst smitaðir. Ríkisstjórnin hefur leitað til ESB og NATO eftir aðstoð. Framkvæmdastjórn ESB hefur sent út sameiginlega beiðni eftir nauðsynjum fyrir heilbrigðiskerfið, sérstaklega andlitsgrímur, fyrir 25 aðildarríki en eftirspurn eftir slíkum vörum er miklu meiri en framboð. 

Þrátt fyrir það hefur von der Leyen heitið þess að andlitsgrímur, hanskar og hlífðarbúnaður verði sendur til spænskra sjúkrahúsa innan tveggja vikna.

Frá Madrid á Spáni.
Frá Madrid á Spáni. AFP
mbl.is