Pompeo sagður trúður og lygari í kínverskum miðlum

Mike Pom­peo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrradag að „mjög sterk­ar …
Mike Pom­peo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í fyrradag að „mjög sterk­ar vís­bend­ing­ar“ sýndu að veir­an ætti upp­runa sinn á rann­sókn­ar­stofu í Kína. AFP

Kínversk yfirvöld hafa síður en svo tekið vel í nýleg ummæli Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um uppruna kórónuveirunnar. „Pompeo og Bannon eru ekkert nema lygarar og trúðar“ segir í fyrirsögn í málgagni kínverska kommúnistaflokksins. Í greininni, sem er á kínversku, eru Pompeo og Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi í Hvíta húsinu, harðlega gagnrýndir fyrir að grafa undan kínverskum yfirvöldum. 

Pom­peo sagði í fyrradag að „mjög sterk­ar vís­bend­ing­ar“ sýndu að veir­an ætti upp­runa sinn á rann­sókn­ar­stofu í Kína. Þessi kenn­ing hef­ur ít­rekað verið bor­in til baka bæði af Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni (WHO) og ýms­um vís­inda­mönn­um. 

„Okkur hafa ekki borist nein gögn eða haldbærar sannanir frá bandarískum stjórnvöldum sem sýna fram á uppruna veirunnar. Að okkar mati er því einungis um getgátur að ræða,“ sagði Michael Ryan, aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, á fjarfundi í gær. 

Aðrir miðlar í Kína hafa gefið út efni á ensku þar sem ummæli Pompeo eru meðal annars sögð „klikkuð.“ 

Global Times segir Pompeo vera að blekkja kjósendur í Bandaríkjunum með ummælum sínum. „Það er augljóst að þessi stjórnmálamaður, sem hefur tapað siðferðisþreki sínu, mun halda áfram að koma heimsbyggðinni í opna skjöldu með fáránlegum kenningum sínum og brengluðum kenningum,“ segir meðal annars í umfjölluninni.  

Þrátt fyrir að ríkismiðlarnir hafi brugðist hratt við ummælum Pompeo á kínverska utanríkisráðuneytið enn eftir að bregðast við með formlegum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert