Nektarstaðir fá milljónaaðstoð

Fimm norskir nektardansstaðir hafa fengið samtals sem nemur tæpum 15 …
Fimm norskir nektardansstaðir hafa fengið samtals sem nemur tæpum 15 milljónum íslenskra króna í kórónuaðstoð. Eigandi staðar í Þrándheimi segir björgunarpakka ríkisstjórnarinnar hafa bjargað öllu, ýmsar áskoranir bíði þó, svo sem sóttkví erlendra dansara við komu til Noregs. Ljósmynd/Wikipedia.org/Unmilited

Norskir nektardansstaðir eru engin undantekning þegar kemur að ríkisaðstoð við atvinnulífið en Jan Tore Sanner fjármálaráðherra kynnti fyrr í mánuðinum stóraukinn 240 milljarða króna, rúmlega 3.400 milljarða íslenskra króna, björgunarpakka til handa fyrirtækjum í landinu sem hafa átt sólarlitla daga vegna þess allsherjarmessufalls í þjóðfélaginu sem kórónuveirufaraldurinn hafði í för með sér.

Tölur frá norsku skattstofunni sýna að nektarstaðirnir After Dark í Bergen, Blaze, Lotus Showbar og String Showbar í Ósló og Dreams Showbar í Þrándheimi hafa fengið greiðslur sem nema 1.045.274 norskum krónum, eða tæpum 15 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag, í skaðabætur fyrir að hafa þurft að loka dyrum sínum hluta marsmánaðar og allt fram til 1. júní.

Þakklátur fyrir breyttar reglur

„Það var mikill velgerningur að breyta reglunum um tímabundnar uppsagnir,“ segir Atle Maaø, sem hefur rekið Dreams Showbar í Þrándheimi í 18 ár, í samtali við viðskiptavefmiðilinn E24. Vísar hann til þess að reglunum um svokallaðar permitteringar, sem fela það í sér að starfsfólki er ekki sagt upp heldur það sent heim á meðan ekkert er að gera, var breytt á þann veg í mars að í stað þess að vinnuveitandi greiði laun fyrstu 15 daga slíks tímabils greiðir hann aðeins laun í tvo daga áður en norska vinnumálastofnunin NAV tekur við og greiðir atvinnuleysisbætur, sem kallast dagpeningar í Noregi.

Eins fól breytingin í sér að lækka mátti starfshlutfall niður í 60 prósent án þess að réttur til dagpeninga á móti félli niður en fram til 20. mars hafði lágmarksskerðing starfshlutfalls til að réttur stofnaðist verið 50 prósent.

Maaø segist mikill fylgismaður þeirrar leiðar að aðstoða alla strax og refsa svo eftir á þeim sem misnota aðstoðina.

Fyrsta júní er gert ráð fyrir að öll vínveitingahús Noregs megi opna dyr sínar, hvort sem þau selja mat eður ei, en það var eitt af skilyrðunum fyrir opnuninni fyrr í þessum mánuði að matur væri seldur á stöðunum. Maaø segir eigendur sumra nektardansstaðanna þó hafa ákveðið að bíða örlítið fram í júní með að opna sínar dyr og leggja þannig lóð sín á vogarskálar sóttvarna.

Húsaleigan stærsti bitinn

Hann segir kórónuveirufaraldurinn bjóða upp á ný og áður óþekkt vandamál. „Það er ekki hægt að bera þetta saman við neitt. Við fundum fyrir fjármálahruninu á sínum tíma eins og allir aðrir, en þetta er bara allt annað mál,“ segir klúbbeigandinn og nefnir sem dæmi erlendar dansmeyjar sem nú þurfi að hefja dvöl sína í Noregi í sóttkví.

„Margir dansaranna okkar koma frá löndum sem styðja ekki jafn vel við þegna sína og við gerum hér í Noregi og þeir þurfa sína vinnu.“

Magnus Saxon Morland, eigandi, framkvæmdastjóri og stjórnarformaður String Showbar í Ósló, segir húsaleiguna hafa verið langstærstu áskorunina eftir að norskt þjóðfélag skellti í lás í mars. Þar hafi björgunarpakki ríkisstjórnarinnar heldur betur riðið baggamuninn.

Upphæðirnar sem runnið hafa til norskra nektardansstaða úr ríkissjóði eftir …
Upphæðirnar sem runnið hafa til norskra nektardansstaða úr ríkissjóði eftir að Noregur skellti í lás í mars. Gjaldmiðillinn er norskar krónur. Tafla/Skattstjóri/E24

„Þessir peningar dugðu til að koma okkur gegnum þetta tímabil auk þess sem þetta [aðstoðin] fór strax í gang,“ segir Morland eftir að hafa gefið E24 upp töluna 210.483 krónur (þrjár milljónir ISK) sem sé sá fasti og óumflýjanlegi kostnaður sem hann standi frammi fyrir mánuð hvern og húsaleigan þar stærsti hlutinn sem fyrr segir.

Morland hyggst opna sínar dyr um leið og hann má sem er 1. júní en fyrst um sinn er honum eingöngu heimilt að hafa opið frá klukkan 18 til miðnættis. „Við munum bjóða upp á það sama og áður, en nú verður það auðvitað með viðeigandi smitvarnaráðstöfunum. Þetta á allt saman eftir að ganga vel,“ eru lokaorð eiganda String Showbar.

E24

VG (áfangaopnanir Noregs í maí og júní)

mbl.is