Tígrisdýr át dýragarðsvörð fyrir framan gesti

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Síberíutígur réðst á og drap konu sem vann í dýragarðinum í Zürich í Sviss í dag. Konan var inni í búri tígrisdýrsins þegar það réðst á hana, en ekki liggur fyrir hvaða erindi hún átti þangað.

Þrátt fyrir tilraunir viðbragðsaðila til að lokka tígrísdýrið frá konunni tókst það ekki, og drap dýrið konuna fyrir framan gesti. „Því miður kom hjálpin of seint,“ hefur BBC eftir Judith Hoedl lögreglukonu.

Dýragarðinum var í kölfarið lokað og viðstöddum boðin áfallahjálp. Í yfirlýsingu frá Severin Dressen, forstöðumanni dýragarðsins, segir að konan hafi verið starfsmaður garðsins um nokkra hríð. „Við vottum ættingjum hennar okkar dýpstu samúð.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dýr ræðst á mann í dýragarðinum í Zürich. Í desember beit krókódíll í hönd starfsmanns við reglubundin þrif. Þar sem dýrið sleppti ekki var tekin ákvörðun um að skjóta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert