Enn eitt smitmetið

Alls var staðfest 65.551 nýtt kórónuveirusmit í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn og er það enn eitt metið hvað varðar fjölda nýrra smita í landinu. Ekkert ríki heims hefur farið jafn illa út úr faraldrinum og Bandaríkin en alls eru smitin rúmlega 3,1 milljón talsins og 133.195 hafa látist af völdum COVID-19.

Mikil fjölgun hefur orðið á staðfestum smitum þar undanfarnar vikur og óttast sérfræðingar að dauðsföllum fari fjölgandi á næstunni. „Við erum á mjög erfiðu og krefjandi tímabili núna,“ seigr helsti sérfræðingur landsins í smitvörnum, Anthony Fauci. 

„Ég tel að við verðum að fá ríkin til að hægja á opnunarferlinu,“ segir hann en bætti við að hann telji ekki að það þurfi að beita jafn hörðum lokunaraðgerðum að nýju og gert var er nánast allt athafnalíf landsins lamaðist og fólki var gert að halda sig heima. 

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur aftur á móti ekki jafn miklar áhyggjur af stöðu mála og Fauci og fjallar um það í færslu á Twitter. „Í 1/100 skiptið, ástæðan fyrir því að hér eru svo mörg smit samanborið við önnur lönd er sú að önnur lönd hafa alls ekki gert jafn vel og við. Það er, sýnatakan okkar er miklu meiri og betri,“ skrifar Trump á Twitter. „Við höfum tekið sýni úr 40 milljónum manna. Ef við hefðum tekið 20 milljónir í staðinn þá væru smitin aðeins helmingur, og svo framvegis,“ bætir hann við. 

Forseti Bólivíu, Jeanine Anez, hefur verið greind smituð af kórónuveirunni og bætist þar í fámennan hóp þjóðarleiðtoga sem hafa veikst af COVID-19 undanfarna mánuði. Í myndskeiði á Twitter segir Anez að hún hafi það ágætt og sinni starfi sínu í einangruninni.

Alls eru 550 þúsund látnir og yfir 12 milljónir hafa smitast af kórónuveirunni frá því hún kom fyrst fram undir lok síðasta árs. 

Ekkert lát virðist vera á útbreiðslu farsóttarinnar í heiminum. Í gær var staðfest fyrsta smitið í norðvesturhluta Sýrlands og óttast er að farsóttinn eigi greiða leið inn í flóttamannabúðir.

Í Alsír segja læknar að stjórnvöld verði að setja reglur varðandi smitvarnir enda ráði þeir ekki lengur við aðstæðurnar.

„Við erum stöðugt að. Við erum gjörsamlega úrvinda,“ segir dr Mohamed Yousfi, yfirlæknir á Boufarik sjúkrahúsinu skammt frá Algeirsborg. Hann segir að starfsfólk sé orðið svo úrvinda að það líði yfir það af þreytu og einhverjir hafa lent í bílslysum þar sem þeir eru ófærir um akstur. Svipaða sögu er að segja í Panama en þar er enn í gildi útgöngubann og smitum fjölgar jafnt og þétt.

Á sama tíma mótmæltu þúsundir Serba í höfuðborginni, Belgrad. Telja þeir að stjórnvöld taki ekki rétt á málunum en þetta er þriðji dagurinn í röð sem mótmælt er í borginni. 

Ítalskir vísindamenn segja að sterkar líkur séu á að verðandi mæður sem eru smitaðar af COVID-19 geti smitað ófædd börn sín. Þar í landi ríkir ótti um að ný smitbylgja sé á leiðinni en Ítalía fór afar illa út úr faraldrinum fyrr á árinu. 

Í París stendur til að opna Eiffel-turninn fyrir gestum en ekki hefur verið hægt að fara upp í turninn í þrjá mánuði. Á Englandi verða líkamsræktarstöðvar og sundlaugar opnaðar að nýju síðar í mánuðinum.

Ekkert lát er á farsóttinni í fjölmennum ríkjum eins og Indlandi, Pakistan og Brasilíu og í Mið-Austurlöndum létust yfir 220 manns í Íran síðasta sólarhringinn en þar eru yfir 12.300 þegar látnir úr COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert