Kveikti í sígarettu með gaskút í bílnum

Mikil mildi þykir að ökumaðurinn hafi sloppið með minni háttar …
Mikil mildi þykir að ökumaðurinn hafi sloppið með minni háttar brunasár og sviðið hár eftir að hann kveikti sér í sígarettu með gaskút í bifreiðinni við E6-brautina í Balsfjord. Ljósmynd/Lögreglan í Troms

Betur fór en á horfðist á E6-brautinni um Balsfjord í norska fylkinu Troms og Finnmark nú undir kvöld þegar ökumaður nokkur stöðvaði bifreið sína og hugðist kveikja sér í tóbaki í ró og næði. Ekki vildi þá betur til en svo að kraftmikil sprenging varð í bifreiðinni sem að öllum líkindum er handónýt eins og ljósmyndir lögreglunnar í Troms bera með sér.

„Hann hlaut brunasár í andliti og sviðið hár þótt reyndar hefði ekki kviknað í bifreiðinni,“ segir Morten Augensen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Troms, í samtali við norska dagblaðið VG sem enn fremur hefur það eftir honum að gaskútur hafi verið inni í bifreiðinni sem allar líkur séu á að tengist sprengingunni, að sögn slökkviliðs sem kom á vettvang.

Aðgerðastjóri lögreglunnar í Troms sagði í samtali við VG að …
Aðgerðastjóri lögreglunnar í Troms sagði í samtali við VG að lögregla þar á svæðinu myndi ekki eftir sambærilegu atviki við það sem varð þar nú undir kvöld. Ljósmynd/Lögreglan í Troms

Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið undir læknishendur en var með meðvitund og ekki alvarlega slasaður að því er virtist. Lögregla hefur enn ekki rætt við hann um gang mála og veit Augensen því ekki hvort hann var inni í bifreiðinni eða utan hennar þegar hann bar eld að tóbaki sínu.

„Við munum rannsaka tildrögin nánar,“ segir aðgerðastjórinn og kveður lögregluna í Troms ekki minnast þess að hafa komið að sambærilegu óhappi.

VG

NRK

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert