Smitaður þjálfari átti að kenna 90 börnum

Stathelle, hluti af sveitarfélaginu Bamble þar sem einn þriggja ítalskra …
Stathelle, hluti af sveitarfélaginu Bamble þar sem einn þriggja ítalskra knattspyrnuþjálfara greindist smitaður af kórónuveiru rétt áður en þeir þremenningarnir áttu að hefja kennslu á vikulöngu námskeiði sem 90 börn voru skráð til þátttöku í. Ljósmynd/Wikipedia.org/H.E. Straume

Einn þriggja ítalskra knattspyrnuþjálfara, sem nýkomnir eru til Noregs til að kenna 90 börnum knattspyrnu á vikulöngu námskeiði, reyndist smitaður af kórónuveiru og var námskeiðinu aflýst á elleftu stundu en þjálfararnir hefðu ellegar hafið kennslu í gær.

Námskeiðið var fyrirhugað í Bamble, sveitarfélagi um miðja vegu milli Óslóar og Kristiansand, og er á vegum fyrirtækis sem reglulega flytur inn knattspyrnuþjálfara frá Ítalíu til að kenna norskum börnum undirstöðuatriði íþróttarinnar á námskeiðum sem haldin eru víða um Noreg.

Þjálfararnir sem áttu að hefja kennslu í gær koma frá „grænu svæði“ á Ítalíu þar sem smittölur eru um þessar mundir lágar. Eftir því sem Hallgeir Kjeldal, bæjarstjóri í Bamble, greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá barst sveitarfélaginu ábending um hugsanlegt smit sem leiddi til þess að þjálfararnir voru sendir í veirupróf.

Kom þá á daginn að einn þeirra reyndist smitaður, aðeins örskömmu áður en þremenningarnir áttu að hitta 90 unga nemendur sem áætlað var að þeir hefðu samneyti við alla vikuna.

Ekki smitaðir samkvæmt fyrra prófi

Kjeldal vill ekki greina frá því hvaðan ábendingin barst eða hvers eðlis hún var en játar að þarna hafi hurð skollið nærri hælum og stjórnendur sveitarfélagsins muni draga lærdóm af atvikinu. „Þetta hefði getað haft í för með sér hættu á smiti um allan bæinn. Til allra heilla hefur okkur líklega tekist að afstýra því,“ segir Kjeldal við NRK.

Smitrakning stendur nú yfir í Bamble þar sem reynt er að hafa uppi á öllum sem gestirnir þrír hafa haft samneyti við síðan þeir lentu á Torp-flugvellinum í Sandefjord um helgina og hefur fylkislækni og Lýðheilsustofnun Noregs verið tilkynnt um málið.

Til að byrja með bárust upplýsingar um að enginn mannanna hefði reynst smitaður samkvæmt fyrra prófi, sem framkvæmt var á Ítalíu, en annað kom á daginn þegar nýtt próf var tekið í skyndingu í fyrradag. Er sá smitaði nú í einangrun en hinir tveir í sóttkví á hóteli í Bamble.

Kórónunni að kenna

Trygve Flood, verkefnastjóri íþróttafélags bæjarins, Bamble IF, tekur fram í viðtali við NRK að ástand heimsmála hafi verið annað þegar gengið var frá komu þjálfaranna þriggja. „Stemmningin var gjörólík því sem nú er,“ segir hann.

Einn væntanlegra þátttakenda á knattspyrnunámskeiðinu, Aurora Wilhelmsen Jahren, segir uppákomuna leiðinlega. Í staðinn fyrir að vera á námskeiði hjá þremur reyndum knattspyrnumönnum hafi hún bara æft sjálf í gær. „Svona fór þetta bara, þetta er kórónunni að kenna,“ segir knattspyrnukonan unga við NRK og brosir þrátt fyrir allt.

NRK

Dagbladet

Telemarksavisa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert