Hver er Amy Coney Barrett?

Amy Coney Barrett.
Amy Coney Barrett. AFP

Það kom fáum á óvart þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um tilnefningu sína til embættis Hæstaréttadómara, að Amy Coney Barrett hafi orðið fyrir valinu. Helstu spár höfðu bent til þess að Barrett yrði fyrir valinu en Trump tók af allan vafa í þeim efnum þegar hann tilkynnti tilnefninguna í Hvíta húsinu í gærkvöldi. 

Hin 48 ára gamla Barrett tekur við dómaraembættinu af Ruth Bader Ginsburg, sem féll frá í síðustu viku, samþykki öldungadeild Bandaríkjaþings tilnefningu hennar. Barrett var kjörin í alríkisáfrýjunardómstól árið 2017, að tilnefningu Bandaríkjaforseta, með 55 atkvæðum gegn 43. 

Fari svo að Barrett taki við dómaraembættinu með samþykki Bandaríkjaþings verður Hæstirétturinn enn íhaldssamari enn áður. Íhaldssamir dómarar verða þá alls sex á móti þremur frjálslyndum. 

„Fullkomin“ til að skila íhaldssömum atkvæðum

Skoðanir Barrett þegar kemur að skotvopnaeign og innflytjendum benda til þess að Barrett sé jafn líkleg til að kjósa alltaf með íhaldssamari hlið dómstólsins og Ginsburg var líkleg til að kjósa alltaf með frjálslyndari arminum. 

„Ginsburg viðhélt einni samræmdustu frjálslyndu atkvæðasögu í sögu dómstólsins. Barrett hefur einnig þetta samræmi og þessa skuldbindingu. Hún er ekki enn í vinnslu eins og aðrar tilnefningar. Hún er fullkominn til þess að skila alltaf íhaldssömum atkvæðum,“ segir Jonathan Turley, prófessor við lagadeild George Washington háskóla í samtali við BBC. 

Barrett og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Barrett og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Atkvæði Barrett, sem styrkir íhaldssaman meirihluta enn frekar, gæti haft gríðarleg áhrif á ýmis málefni í Bandaríkjunum næstu áratugina, sérstaklega hvað varðar til dæmis rétt kvenna til aðgengis að þungunarrofi og rétt Bandaríkjamanna til sjúkratrygginga. Fyrri ummæli Barrett hvað varðar til dæmis hjónaband samkynhneigðra, þungunarrof og aðgengi kvenna að getnaðarvörnum, hafa gert hana vinsæla meðal íhaldssamra trúarhópa. Barrett hefur þó, sem kaþólikki, haldið því fram að trúarlegar skoðanir hennar hafi engin áhrif á starf hennar. 

Hefur unnið til kennsluverðlauna

Barrett býr í bænum South Bend í Indíana-ríki með eiginmanni sínum Jesse, sem er fyrrum saksóknari og starfar nú sem lögmaður. Hjónin eiga sjö börn, þar af tvö kjörbörn frá Haíti. Barrett er sjálf elst sjö systkina. Hún lærði lögfræði við Notre Dame-háskólann í Bandaríkjunum og starfaði sem aðstoðarmaður Antonin Scalia, sem var að hennar mati „dyggasti íhaldsmaðurinn“ í Hæstarétti Bandaríkjanna á sínum tíma. 

Líkt og lærifaðir sinn Scalia aðhyllist Barrett þá aðferðarfræði að túlka stjórnarskrá Bandaríkjanna bókstaflega út frá vilja höfunda hennar. Margir frjálslyndari lögfræðingar og dómarar eru mótfallnir þessari túlkun stjórnarskrárinnar og segja mikilvægt að hafa rými til þess að túlkunin breytist í takt við tímann. 

Barrett hefur stóran hluta ferilsins kennt við gamla háskólann sinn Notre Dame. Þar hefur hún marg oft verið valin kennari ársins af nemendum. Hún þykir bráðskarpur fræðimaður og kennari, vingjarnleg og sanngjörn. 

„Ég er mjög á báðum áttum af því að hún er frábær kennari. Hún talaði aldrei um stjórnmál í kennslustofunni. En ég er aftur á móti ekki sammála skoðunum hennar. Ég held að það væri ekki gott fyrir þjóðina ef hún verður hæstaréttardómari,“ segir einn fyrrum nemenda Barrett við BBC. 

Paolo Carozza, samstarfsmaður Barrett við Notre Dame háskólann, segir Barrett iðulega vakna á milli 4 og 5 á morgnana. Hún sé venjuleg, góðhjörtuð og hlý manneskja. Carozza, sem er sjálfur mjög trúaður maður líkt og Barrett, segist óttast að Barrett verði einfölduð niður í trúarlegar skoðanir hennar. „Það veldur mér áhyggjum, vitandi hversu frábær og hugulsöm manneskja hún er,“ segir Carozza. 

Ýmis mannréttindasamtök, meðal annars Human Right Campaign sem berjast fyrir mannréttindum hinsegin samfélagsins, hafa varað við Barrett vegna trúarlegrar skoðana hennar. HRC segja Barrett „ógna“ réttindum samkynhneigðra á meðan Guttmacher samtökin, sem berjast meðal annars fyrir aðgangi kvenna að getnaðarvörnum, segja mögulega skipun Barrett „reiðarslag“ fyrir réttindi kvenna til getnaðarvarna og aðgangs að þungunarrofi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina