Lögmaður Tom Hagen skellti á blaðamann mbl.is

Svein Holden, lögmaður Tom Hagen, brást hinn versti við þegar …
Svein Holden, lögmaður Tom Hagen, brást hinn versti við þegar blaðamaður mbl.is spurði hann út í fimm skotvopn sem fundust á heimili skjólstæðings hans og lauk símtalinu með því að skella á. AFP

„Ég segi bara ekkert um þetta við þig!“ sagði Svein Holden, lögmaður norska auðkýfingsins  og verkfræðingsins Tom Hagen, rétt í þessu og skellti á blaðamann mbl.is í mjög stuttu samtali um skotvopn sem norska ríkisútvarpið NRK greinir frá að Hagen hafi sofið með við hlið sér.

Hagen, einn umtalaðasti maður Noregs síðustu tvö ár og eiginmaður Anne-Elisabeth Hagen, sem hvarf sporlaust að morgni 31. október 2018 frá heimili sínu í Lørenskog, skammt utan við norsku höfuðborgina Ósló, og lögreglan í Raumaríki hefur grunaðan um að vera valdan að hvarfi eiginkonu sinnar, liggur nú undir nýjum grun lögreglu, en hann hefur auk þess frá því í vor verið grunaður um að hafa sjálfur látið ræna konu sinni og hugsanlega myrða hana í kjölfar hótana um að hún hygðist skilja við hann.

Neitar sök í málinu

Lögregla hefur greint frá fimm skotvopnum auk skotfæra sem fundust við leit á heimili Tom Hagen við Sloraveien í Lørenskog sem að sögn lögreglu styrkir þann grun hennar að Hagen hafi óhreint mjöl í pokahorninu.

Hagen hefur þráfaldlega neitað, þar á meðal í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK í október, sem mbl.is greindi frá, að hafa haft nokkuð með hvarf konu sinnar að gera. Útskýrir hann skotvopnaviðbúnað sinn, að sögn lögreglu, með því að hann hafi óttast að þeir sem námu konu hans á brott fyrir rúmum tveimur árum sneru til baka að heimili þeirra hjóna.

Hagen var handtekinn í vor og hnepptur í gæsluvarðhald sem landsréttur hnekkti síðan. Lögregla hugðist handtaka hann á ný um leið og hann gekk út úr klefanum í fylgd lögmanns síns, Svein Holden, en þá varð atburður sem líklega er einstakur í norskri réttarsögu. Kirsti Guttormsen, héraðssaksóknari í Ósló, bannaði lögreglu að handtaka Hagen á ný og bað hana vinsamlegast að halda sig til hlés þar til hún hefði gögn sem héldu vatni í málinu gegn Hagen.

Vopnin, sem lögregla greinir nú frá að fundist hafi á heimili Hagen, eru tvær Astra-skammbyssur, Husqvarna-skammbyssa frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar, Smith & Wesson-skammbyssa og hlaðin haglabyssa. Auk skotvopnanna fundust að sögn lögreglu skotfæri fyrir haglabyssuna og níu millimetra byssukúlur á heimili verkfræðingsins.

Vopnin geymd í stálkistu

Holden, lögmaður Hagen, fullyrðir að skjólstæðingur hans hafi greint lögreglu frá vopnunum fyrir löngu og þverneitaði að tjá sig um málið þegar mbl.is innti hann svara rétt í þessu. Lauk samtalinu með því að Holden, svo sem fyrr segir, skellti á blaðamann mbl og sagðist ekkert tjá sig um málið að sinni.

„Þessi vopn eru skráð og voru geymd í kistu úr stáli með lás þótt hún sé ekki í samræmi við reglugerðir. Hún er þannig gerð að ekki er auðvelt að komast að vopnunum þótt kistan sé opin,“ sagði Holden við NRK í dag og benti á að skjólstæðingur hans hefði lengi iðkað skotfimi sem íþrótt.

Holden er ekki einn um að neita að ræða við fjölmiðla því lögreglan í Raumaríki neitar alfarið að tjá sig nánar um vopnin við NRK fyrir utan hvers konar vopn hafi verið um að ræða.

Var skelfingu lostinn

NRK kveðst hafa heimildir fyrir því að vopnin hafi fundist við húsleit lögreglu snemma í rannsókn málsins og hafi þá ekki verið geymd í læstri hirslu, svo sem lögboðið er, heldur verið í svefnherbergi Tom Hagen.

„Hann var skelfingu lostinn og hræddur og þess vegna náði hann í haglabyssuna og geymdi hana við rúm sitt. Hann vildi bara geta varist sneru þeir sem rændu konu hans aftur,“ sagði Holden við NRK og vísaði í þau ummæli í samtali við mbl.is í kvöld.

NRK
VG
Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert