Safnar þvagi listakvenna

Norska listakonan Veslemøy Lilleengen hyggst verja ellefu árum af ævi …
Norska listakonan Veslemøy Lilleengen hyggst verja ellefu árum af ævi sinni í að safna þvagi norskra starfssystra sinna og mynda úr því hinn sjaldgæfa lit potteblå með blöndun við indígóbláan lit. Blöndunni er ætlað að lita fjölda stuttermabola til að vekja athygli á kynjamisrétti við opinber listaverkakaup í Noregi. Ljósmynd/Susann Jamtøy

„Þetta er sprottið af rannsókn sem menningarmálaráð [n. kulturrådet] framkvæmir árlega og snýr að ýmissi tölfræði í listaheiminum, fjölda listamanna, fjármálum og fleiru,“ segir norska listakonan Veslemøy Lilleengen frá Þrándheimi í samtali við mbl.is og á við heldur óvenjulega listsköpun sem hún tók að leggja drög að í haust og hyggst sinna næstu ellefu árin.

Gjörningur þessi, ef svo mætti kalla, felst í því að Lilleengen fær norskar listakonur til að safna þvagi sínu í brúsa og færa henni, fimm lítra frá hverri kvennanna og eitt fylki landsins tekið fyrir í einu.

Í fyllingu tímans hyggst Lilleengen svo blanda þvaginu við indígóblátt litarefni og þar með framkalla þann fágæta bláa lit sem á norsku kallast potteblå og mun sjaldséður. Lit þennan mun hún svo nota til að lita fjölda stuttermabola og færa listakonunum að gjöf í því augnamiði að vekja athygli á því sem hún telur mjög skakka tölfræði í norskum listaheimi og lái henni hver sem vill.

Innan við ellefu prósent frá konum

„Þessi rannsókn menningarmálaráðs leiddi það meðal annars í ljós, síðast þegar hún var framkvæmd, að innan við ellefu prósent þeirra fjármuna sem hið opinbera ver til kaupa á listaverkum fer í að kaupa verk norskra listakvenna,“ útskýrir Lilleengen.

Hún játar þó að sumir opinberir aðilar eða stofnanir hafi lagt sig í framkróka við að kaupa listaverk kvenna, en þegar á heildina sé litið sé yfirgnæfandi meirihluti listaverkakaupa norska ríkisins frá vinnustofum karlkyns listamanna.

„Kvenkyns listamenn í Noregi þéna að meðaltali innan við helming þess sem starfsbræður þeirra bera úr býtum. Hvernig stendur á því? Er það vegna þess að karlkyns listamenn skapa svona frábæra list en konurnar svona lélega?“ spyr listakonan og skellihlær.

Með gjörningi sínum fetar Lilleengen í fótspor norsku listakonunnar Hönnu (nf. Hannah) Ryggen (1894 – 1970) sem notaðist töluvert við sitt eigið þvag í listsköpun sinni og gerði myndir með litnum potteblå sem Lilleengen hyggst nú kalla fram á nýjan leik, en þær bjuggu í sama bænum, Ørland í Suður-Þrændalögum, þótt ekki væru þær samtímakonur.

„Þær eru nú ýmsu vanar“

„Ég er komin með 150 lítra núna,“ segir Lilleengen og sendir blaðamanni ljósmyndina sem hér má sjá af fjölda fimm lítra brúsa með allmislitum vökva í. „Litamunurinn stafar af því að þvagið hefur staðið mislengi, engin ástæða er til að hafa áhyggjur af heilsu þvaggjafanna,“ segir vörslukona þvagsins og hlær tröllahlátri á ný, „það elsta er frá því í haust.“

Hluti af fyrstu 150 lítrunum sem listakonan hefur safnað síðan …
Hluti af fyrstu 150 lítrunum sem listakonan hefur safnað síðan í haust. Hún segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af heilsufari þvaggjafanna, litamunurinn stafi af mislöngum geymslutíma þvagsins. Ljósmynd/Veslemøy Lilleengen

Bregðast norskar listakonur almennt vel við beiðni um að safna fimm lítrum af þvagi sínu í brúsa og afhenda kollega sínum?

„Já já, þær eru nú ýmsu vanar,“ svarar Lilleengen um hæl. „Ég hef bara samband, útskýri það verkefni sem ég er að fara út í og nú sé ég að viða að mér efni svo það megi verða framkvæmanlegt, ég þurfi fimm lítra af þvagi frá hverri þeirra og hvort þær vilji vera svo almennilegar að leggja mér lið í baráttunni sem er í langflestum tilfellum alveg sjálfsagt,“ segir hún frá og hlær nú þriðja sinni eins og marbendillinn í þjóðsögunni.

Hvernig má það vera að hún hyggist verja ellefu árum ævi sinnar í þetta sérstaka verkefni?

„Þetta tekur óhemjutíma, söfnunin nær til alls Noregs, eins fylkis í einu, og ég er auðvitað á kafi í öðrum verkefnum líka samhliða þessu,“ útskýrir listakonan. „Mér finnst það ekki þungur kross að bera, að safna pissi í ellefu ár, nái ég með því að vekja athygli á því grófa misrétti sem norskar listakonur eru beittar af hálfu hins opinbera,“ bætir hún við, ómyrk í máli.

Dáir Hildi Bjarnadóttur

Undir lok spjallsins getur Veslemøy Lilleengen, þessi réttsýna listakona frá Þrændalögum sem berst fyrir rétti kynsystra sinna, ekki á sér setið að segja frá íslenskri listakonu sem hún er ákaflega hrifin af.

„Það er hún Hildur Bjarnadóttir ykkar, ég er alveg yfir mig hrifin af hennar listsköpun, ekki síst hvernig hún notar náttúruliti,“ segir Lilleengen upptendruð og segir frá því þegar hún var í meistaranámi við Háskólann í Bergen þar sem Hildur varði á sínum tíma doktorsverkefni sitt, Textiles in the Extended Field of Painting.

Lilleengen segist stórhrifin af íslensku listakonunni Hildi Bjarnadóttur og notkun …
Lilleengen segist stórhrifin af íslensku listakonunni Hildi Bjarnadóttur og notkun hennar á náttúrulitum. Þær sóttu sama háskóla í Bergen á sínum tíma. Ljósmynd/Susann Jamtøy

„Hún hefur meira að segja heimsótt vinnustofuna mína, ég er nú ekkert viss um að hún muni eftir mér lengur en mér finnst hún alveg einstök listakona og hennar verk hafa haft mikil áhrif á mig,“ segir Þrándheimsbúinn og listakonan Veslemøy Lilleengen að lokum, sem mun ekki skorta verkefni í sinni listsköpun næstu ellefu árin gangi áætlanir hennar eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert