Herinn hefur tekið völdin í Mjanmar

Aðgerðasinnar mótmæla handtöku Aung San Suu Kyi og valdatöku hersins.
Aðgerðasinnar mótmæla handtöku Aung San Suu Kyi og valdatöku hersins. AFP

Herinn hefur tekið völdin í Mjanmar en sjónvarpsstöð hersins tilkynnti í nótt að herinn færi með völd í landinu næsta árið. Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, og fleiri stjórnmálamenn voru tekin höndum af hernum skömmu áður. 

Yfirtaka hersins var framkvæmd eftir að spenna jókst á milli ríkisstjórnarinnar og hersins eftir umdeildar kosningar í landinu. Herinn hefur lofað því að halda lýðræðislegar kosningar og láta völdin í hendur lýðræðislega kjörinna fulltrúa eftir ár. 

Mjanmar, sem einnig er þekkt sem Burma, var undir stjórn hersins áður en lýðræðislegar breytingar fóru af stað þar árið 2011. 

Herinn sagði að völdin yrðu nú færð í hendur hershöfðingjanum Min Aung Hlaing vegna „kosningasvindls“. Hermenn eru á götum úti í höfuðborginni Nay Pyi Taw og borginni Yangon.

NLD, flokkur Suu Kyi, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu fyrir hennar hönd. Þar er haft eftir henni: „Ég hvet fólk til þess að samþykkja ekki [valdatöku hersins], að bregðast við og mótmæla henni með öllu hjarta.“

Win Myint, settur forseti landsins, og Aung San Suu Kyi. …
Win Myint, settur forseti landsins, og Aung San Suu Kyi. Myint undirritaði yfirlýsingu hersins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert