Gos í einu virkasta eldfjalli heims

Hraun rennur úr gíg eldfjallsins Merapi og niður hlíðar þess.
Hraun rennur úr gíg eldfjallsins Merapi og niður hlíðar þess. AFP

Eitt virkasta eldfjall heims, hið indónesíska Merapi, gaus í morgun, og sendi frá sér heitt rautt hraun. Merapi er staðsett nálægt borginni Yogyakarta á Java-eyju. Fjallið hafði þegar spúið hrauni um tuttugu sinnum á síðustu tveimur dögum og valdið hundruðum minni háttar jarðskjálfta samkvæmt skýrslu jarðfræðistofnunar Indónesíu. 

„Í morgun urðum við vör við hraunflóð sjö sinnum,“ sagði í tilkynningu frá stofnuninni en fjallið spúði hrauninu allt að 700 metra til suðvesturs. 

Opinber viðvörun um stöðu eldfjallsins er þrátt fyrir allt óbreytt en hún hefur haldist á næsthæsta stigi frá nóvember í fyrra. 

Íbúum á svæðinu var sagt að forðast að vera staðsettir í fimm kílómetra radíus frá gígnum.

Í síðasta mánuði spúði eldfjallið risastórum reyk- og öskuskýjum. 

Síðasta stóra eldgos í Merapi varð árið 2010. Fleiri en 300 fórust í gosinu og 280.000 manns þurftu að yfirgefa heimili sín. Árið 1930 varð einnig stórt gos í eldfjallinu en þá létust 1.300 manns. Árið 1994 fórust 60 manns vegna goss í Merapi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert