Ók á fjölda bifreiða

Bifreiðin staðnæmdist að lokum á vegriði og upp við stórt …
Bifreiðin staðnæmdist að lokum á vegriði og upp við stórt tré eftir að gangandi og hjólandi vegfarendur á Fjellveien í Bergen höfðu átt fótum fjör að launa í morgun. Ökumaðurinn forðaði sér á hlaupum og er hans nú leitað um alla borgina. Ljósmynd/Ábendinganetfang VG

Björgvinjarbúar í sunnudagsgönguferðum áttu sumir hverjir fótum fjör að launa á og við Fjellveien í Bergen í Noregi í morgun, veg sem liggur upp að hinum rómaða útsýnisstað Fløyen, þegar stórri vörubifreið var ekið á margar bifreiðar og tré á svæðinu áður en hún staðnæmdist hálf út af veginum upp við tré.

Ökumaðurinn, með bláan hjálm á höfði og íklæddur skærgulum vinnufatnaði, forðaði sér á hlaupum og leitar lögregla í Bergen hans nú dyrum og dyngjum.

„Við vitum ekki hvar hann er niður kominn,“ segir Per Algrøy, aðgerðastjóri lögreglunnar, í samtali við norska dagblaðið VG og segir margar lögreglubifreiðar aka um Bergen í leit að manninum.

Kom á fljúgandi siglingu

„Við höfum ekkert í höndunum sem bendir til þess að hann hafi reynt að aka á fólk, fleira bendir til þess að hann hafi verið að forða sér undan lögreglunni,“ segir aðgerðastjórinn enn fremur.

„Hann kom skyndilega á fljúgandi siglingu út úr beygju. Ég hélt fyrst að þetta væri atvinnubílstjóri sem væri orðinn seinn, en áttaði mig á að ekki var allt með felldu þegar hann dró ekki úr hraðanum,“ segir Rebecca Fugelli sem var á göngu í nágrenninu ásamt Vönju Andersen vinkonu sinni.

Rebecca Fugelli og Vanja Andersen töldu fyrst að um væri …
Rebecca Fugelli og Vanja Andersen töldu fyrst að um væri að ræða atvinnubílstjóra sem orðinn væri seinn í verkefni en áttuðu sig á að ekki væri allt með felldu þegar ökumaðurinn hægði ekki á sér og ók rakleiðis á kyrrstæða bifreið og þaðan inn á göngustíg. Ljósmynd/Aðsend

Þær stöllur hafi svo heyrt háan brest þegar vörubifreiðin ók á kyrrstæða bifreið. Ökumaðurinn hafi svo bakkað eftir ákeyrsluna og ekið rakleiðis inn á göngustíg þar sem hópur fólks var á göngu. Maður í þeim hópi hafi hrópað á samferðafólk sitt að gæta sín og hópurinn hlaupið út af stígnum.

Kim Furuseth, sem kom á reiðhjóli sínu niður Fjellveien á móti vörubifreiðinni, sá sitt óvænna og kom sér út af veginum þegar hann sá bifreiðina æða á móti sér. Skömmu síðar kveðst hann hafa séð ökumanninn yfirgefa bifreiðina eftir að hafa ekið út af og forða sér á hlaupum niður bratta brekku og í átt að miðbænum.

Eins og sjá má hvílir vörubifreiðin á tré við vegkantinn. …
Eins og sjá má hvílir vörubifreiðin á tré við vegkantinn. Ellegar hefði hún að öllum líkindum oltið niður bratta hlíðina og niður í íbúðabyggð fyrir neðan og er þá óvíst hver örlög ökumannsins hefðu orðið sem reyndar var þó með hjálm á höfði þar sem hann sást forða sér á hlaupum. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamenn Bergens Tidende höfðu samband við skráðan eiganda vörubifreiðarinnar sem kom af fjöllum og kvaðst ekki vita betur en bifreiðin stæði við Skoltegrunns-bryggjuna í miðbænum þar sem hann hefði skilið við hana á föstudaginn.

„Þetta er ægilegt að heyra, mér er verulega brugðið,“ sagði eigandinn þegar norska ríkisútvarpið NRK náði tali af honum eftir hádegið í dag, en að sögn lögreglu hringdu á þriðja tug vegfarenda í neyðarlínuna og tilkynntu um háskalegt aksturslag vörubifreiðarinnar á leið hennar frá miðbænum að útivistarsvæðinu við Fjellveien.

VG

NRK

Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert