Morðin eru hryðjuverk

AFP

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, fordæmir morðið á fjögurra manna fjölskyldu og segir að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Hann hvetur Kanadabúa til samstöðu gegn skorti á umburðarlyndi.

Bílstjóri pallbíls keyrði á sunnudag viljandi á hjón, dóttur þeirra á unglingsaldri og ömmu stúlkunnar í borginni London í Ontario-fylki. Eini úr fjölskyldunni sem lifði af er níu ára gamall sonur hjónanna. Hann er á batavegi á sjúkrahúsi. Að sögn lögreglu keyrði ökumaðurinn vísvitandi upp á gangstétt og á fjölskylduna. 

AFP

„Þessi dráp eru ekki slys. Þetta var hryðjuverkaárás byggð á hatri,“ sagði Trudeau meðal annars í tilfinningaþrungni ræðu á kanadíska þinginu í gær. 

Hann ávarpaði síðan í gærkvöldi þátttakendur í minningarstund í mosku sem fjölskyldan sótti. Þúsundir hlýddu á Trudeau þar. „Þið eruð ekki ein. Allir Kanadamenn syrgja með ykkur og standa með ykkur í kvöld,“ sagði Trudeau þegar hann ávarpaði samfélag múslíma í Kanada. 

Fjölskyldan sem var drepin er af pakistönskum ættum: Madiha Salman, 44 ára, starfaði sem verkfræðingur hjá hinu opinbera, eiginmaður hennar, Salman Afzaal, 46 ára, 15 ára gömul dóttir þeirra, Yumna Salman, og móðir Afzaals. 

Hryðjuverkamaðurinn, Nathaniel Veltman, er tvítugur að aldri og var hann handtekinn 7 km frá staðnum þar sem hann myrti fjölskylduna. Hann hefur verið ákærður fyrir fjögur morð og morðtilraun.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert