Enginn kannast við að eiga gömul og verðmæt málverk

Annað verkanna er sjálfsmynd málarans Pietro Bellotti.
Annað verkanna er sjálfsmynd málarans Pietro Bellotti.

Lögreglan í Þýskalandi hefur óskað eftir upplýsingum frá almenningi eftir að tvö verðmæt málverk frá 17. öld fundust við A7-þjóðveginn í Bæjaralandi í síðasta mánuði.

Talið er að gripirnir, sem eru olíumálverk, séu eftir hollenska listamanninn Samuel van Hoogstraten og Ítalann Pietro Bellotti.

Karlmaður fann þau við bensínstöð á veginum suður af Würzburg og kom þeim til lögreglunnar. Enginn hefur enn gert tilkall til þeirra.

Samuel van Hoogstraten mun hafa málað þessa mynd af dreng …
Samuel van Hoogstraten mun hafa málað þessa mynd af dreng með húfu.

Milljóna króna málverk

Sérfræðingar segja listaverkin ósvikin.

Í umfjöllun BBC er bent á að málverk eftir Hollendinginn hafi selst á rúm 50 þúsund pund árið 2019, eða rúmar átta milljónir króna.

Annað verka hans seldist árið 2018 fyrir 285 þúsund pund, eða tæplega 49 milljónir króna.

mbl.is