Engin stoð í sögum um ofurmátt Ivermectin

Bólusetning með Sinovac á knattspyrnuvelli í borginni Surabaya í Indónesíu.
Bólusetning með Sinovac á knattspyrnuvelli í borginni Surabaya í Indónesíu. AFP

Þegar kórónuveiran fór á flug í Indónesíu í byrjun júlí hófu landsmenn að hamstra lyfið Ivermectin af miklum ákafa og brátt var það uppselt í apótekum víða um land. Ástæðan fyrir þessari áfergju í lyf, sem notað er gegn sníkjudýrum, var málflutningur stjórnmálamanna og áhrifavalda á félagsmiðlum.

Vísindin styðja hins vegar engan veginn fullyrðingar um ágæti Ivermectin við að vinna á kórónuveirunni og hafa Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna og sóttvarnayfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu varað við notkun þess. Meira að segja framleiðandinn, Merck, sagði enga vísindalega stoð fyrir því að lyfið hefði áhrif á veiruna og það gæti valdið skaða ef það væri notað með röngum hætti.

Þeir sem lengst ganga í áróðri fyrir Ivermectin halda fram að yfirvöld horfi vísvitandi fram hjá gagnsemi Ivermectin til að hygla lyfjafyrirtækjum og segja að öllum brögðum sé beitt til að þagga niður í þeim. Í þeirra heimi hafa stjórnvöld um allan heim látið yfir almenning ganga endalausar samkomutakmarkanir og aðrar aðgerðir með ómældum skakkaföllum fyrir efnahag heimsins, frekar en að viðurkenna lækningamátt undralyfsins Ivermectin, allt í þágu lyfjarisa.

Umræða um lyfið í sambandi við kórónuveiruna kviknaði fyrst um mitt ár 2020. Þá birtist grein eftir ástralska vísindamenn þess efnis að háir skammtar sýndu virkni gegn SARS-CoV-2-veirunni, sem veldur kórónuveikinni, á rannsóknarstofu. Lyfjafræðingar bentu hins vegar strax á að vegna sérstakra eiginleika Ivermectin myndi sennilega vera ógerningur að ná sambærilegum styrk lyfsins í blóðrás sjúklinga við það sem notað var í tilrauninni.

Hæpin rannsókn

Í nóvember í fyrra birtist svo óritrýnd grein á gáttinni Research Square um virkni og öryggi Ivermectin þar sem Ahmed Elgazzar, vísindamaður við Benha-háskóla í Egyptalandi, var aðalhöfundur.

Þar sagði að kórónuveirusjúklingar, sem lagðir voru á sjúkrahús og gefið Ivermectin snemma, hefðu sýnt „verulegar framfarir og dregið hefði úr dauðsföllum“ sem nam 90%.
Egypska greinin hefur nú verið dregin til baka vegna margra galla á rannsókninni og að textinn í henni var að stórum hluta stolinn. 

Útslagið um að ekki væri mark takandi á greininni gerði að 79 sjúklingaskrár voru greinilega tvítekning á öðrum skrám, sem lágu greininni til grundvallar. 

Öflugt snýkjudýralyf

Ivermectin er öflugt lyf gegn sníkjudýrum. Mest er það notað í sunnanverðri Afríku og hefur bjargað milljónum manna frá blindu og öðrum meinum og jafnvel dauða og útrýmdi fjárkláðamítlinum á Íslandi. Árið 2015 fengu írski sníkjudýrafræðingurinn William C. Campbell og japanski lífefnafræðingurinn Satoshi Omura nóbelinn í læknisfræði fyrir að þróa virka efnið Avermectin á síðustu öld gegn smiti þráðorma, sem valda meðal annars fílaveiki og fljótablindu. Við frekari þróun varð til Ivermectin, sem er enn virkara. Fílaveiki og árblinda heyra vegna þessa lyfs nú næstum sögunni til.

Efasemdir um virkni Ivermectin gegn kórónuveirunni hafa alla tíð verið miklar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf út í mars að ekki ætti að gefa kórónuveirusjúklingum Ivermectin, nema það væri í rannsóknarskyni. Vísbendingar um að lyfið hefði áhrif á dánartíðni eða stuðlaði að lækningu væru afar takmarkaðar og óábyggilegar.
„Lítill kostnaður og mikið framboð gefa að mati nefndarinnar ekki tilefni til að nota lyf, sem óvíst er að geri nokkurt gagn og viðvarandi ástæða er til að halda að geti valdið skaða,“ sagði í niðurstöðu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Fyrr í sama mánuði gáfu sóttvarnayfirvöld ESB út svipuð tilmæli. Á heimasíðu bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins, FDA, er síða þar sem er spurt og svarað. Þar er spurningin „Ætti ég að taka Ivermectin til að fyrirbyggja eða vinna á Covid-19?“ Svarið er stutt: „Nei.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Heimildir: Los Angeles Times, The Guardian, Der Spiegel og AFP.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert