Tekinn af lífi fyrir tvöfalt morð árið 1991

AFP

Maður, sem var dæmdur til dauða fyrir að hafa myrt tvo bræður á heimili þeirra árið 1991, var tekinn af lífi í Texas í gær.

Hæstiréttur landsins hafði áður hafnað áfrýjunarbeiðni sem hefði getað orðið til þess að málinu hefði verið vísað frá vegna þess hvernig kviðdómurinn var valinn.

Rick Rhoades, 57 ára, var sprautaður með banvænum skammti í fangelsinu Huntsville. Þar með varð hann sjötti fanginn sem er tekinn af lífi í Bandaríkjunum á þessu ári.

Rick Rhoades var tekinn af lífi.
Rick Rhoades var tekinn af lífi. AFP

Rhoades stundaði á sínum tíma innbrot en var á reynslulausn þegar hann gekk inn á heimili Charles Allen 13. september 1991. Þar bjó Allen ásamt bróður sínum Bradley í úthverfi borgarinnar Houston.

Hann drap þá í svefni áður en hann rændi þá, að sögn yfirvalda. Rhoades var handtekinn mánuði síðar eftir að hafa brotist inn í skóla. Hann játaði morðin og sagðist hafa átt í útistöðum við Charles Allen fyrir utan heimili sitt.

Árið 1992 var hann dæmdur til dauða. Síðan þá hafa lögmenn hans sakað saksóknara um að hafa kerfisbundið komið í veg fyrir að svart fólk yrði hluti af kviðdómnum.

Rhoades var hvítur, rétt eins og Allen-bræðurnir, en ef hægt hefði verið að færa sönnur á ásakanirnar, hefði málinu verið vísað frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert