Seinkanir á flugi vegna bilana

Allar brottfarir frá flugvöllum í París voru stöðvaðar í dag, …
Allar brottfarir frá flugvöllum í París voru stöðvaðar í dag, þar á meðal á Orly flugvellinum. AFP

Allar brottfarir frá flugvöllum í París í Frakklandi voru stöðvaðar í skamma stund í dag vegna tæknilegrar bilunar.

Að sögn þarlendra yfirvalda voru brottfarir stöðvaðar í minna en 30 mínútur á flugvöllunum í Orly og Roissy-Charles de Gaulle í morgun.

Yfirvöld í Frakklandi segja orsök seinkunarinnar vera bilun í kerfi sem stjórnar flugáætlunum. Bilunin hafði þó ekki áhrif á komur til landsins.

Kort Eurocontrol sýndi að fjölmargar flugferðir yfir norðurhluta Frakklands töfðust um meira en 45 mínútur í kjölfar bilunarinnar.

mbl.is