Skera niður mataraðstoð í Jemen

Hin 10 ára gamla Ahmadia Abdo vegur aðeins 10 kíló …
Hin 10 ára gamla Ahmadia Abdo vegur aðeins 10 kíló vegna vannæringar. AFP

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna greindi frá því í dag að hún neyðist til þess að skera niður mataraðstoð í Jemen vegna fjárskorts og varaði við yfirvofandi hungursneyð í hinu stríðshrjáða landi.

Nærri 80% íbúa Jemen háðir mannúðaraðstoð

„Frá og með janúar mun matarúthlutun til átta milljón íbúa verða skert en matarúthlutun til þeirra fimm milljón íbúar, sem eru í mestri hættu á að lenda í hungursneyð, verður óskert,“ segir í yfirlýsingu frá stofnuninni, sem bætti því við að það væri vegna fjárskorts.

Borgarstyrjöld hefur geisað milli Hútí-fylkingarinnar, uppreisnarmanna í Jemen, og stuðningsmanna Ali Abdulla Saleh, fyrrverandi forseta landsins síðan árið 2014 og eru milljónir óbreyttra borgara á barmi hungursneyðar vegna þess, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Tugþúsundir manna hafa látist og milljónir lagt á flótta vegna átakanna sem hefur gert nærri 80% íbúa Jemen háða mannúðaraðstoð.

Hinn tveggja ára gamli Ahmed Abdo Salem vegur aðeins tvö …
Hinn tveggja ára gamli Ahmed Abdo Salem vegur aðeins tvö kíló en heilbrigð börn á hans aldri vega um 11 kíló. AFP

„Í hvert skipti sem við þurfum að skera niður mataraðstoð vitum við að þeir sem nú þegar líða skort munu bætast í hóp þeirra milljón manna sem svelta,“ er haft eftir Corinne Fleischer, forstjóra WFP í Miðausturlöndunum og Norður-Afríku, í yfirlýsingunni.

„Nú eru góð ráð dýr og verðum við að teygja fjármuni okkar sem eru takmarkaðir, forgangsraða og einbeita okkur að því fólki sem stendur hvað höllustum fæti.“

Til að geta haldið áfram að veita fjölskyldum á barmi hungursneyðar mataraðstoð þarf stofnunin aukafjármögnun upp á 1,97 milljarða bandaríkjadali.

Minnkuð fjárveiting til mannúðarmála á síðasta ári varð til þess að draga þurfti ýmsa mannúðarþjónustu saman, þar á meðal heilbrigðisþjónustu og matarúthlutun, sem olli miklum erfiðleikum í Jemen, sem var þegar að glíma við eina stærstu mannúðarkreppu í heimi.

Verði ekkert að gert munu fleiri en 16 milljónir Jemena …
Verði ekkert að gert munu fleiri en 16 milljónir Jemena glíma við hungursneyð. AFP

Íbúar Jemen aldrei verið í jafn viðkvæmri stöðu

Samkvæmt nýjustu tölum Sameinuðu þjóðanna munu fleiri en 16 milljón Jemena, sem er um helmingur allra íbúa í landinu, glíma við hungursneyð á þessu ári. Nærri 50.000 þeirra eru nú þegar að deyja úr hungri.

Á sama tíma og WFP sendi frá sér tilkynninguna var hjálparflug Sameinuðu þjóðanna til Sanaa, höfuðborgar Jemen, stöðvað vegna loftárása stuðningsmanna Ali Abdulla Saleh.

Stuðningsmenn Saleh hafa komið í veg fyrir flug inn á flugvöllinn í Sanaa síðan í ágúst 2016 en undanþágur hafa verið veittar fyrir hjálparflug sem er líflína fyrir íbúa í landinu.

„Íbúar Jemen eru í viðkvæmari stöðu nú en nokkurn tímann áður,“ segir Fleischer.

mbl.is