Rússar beita einu hættulegasta vopni sínu

Iskander-flaug tekur á loft á rússneskri heræfingu fyrr í febrúar.
Iskander-flaug tekur á loft á rússneskri heræfingu fyrr í febrúar. AFP

Rússneskar hersveitir skjóta nú hinum gríðaröflugu Iskander-eldflaugum að Úkraínumönnum, meðal annars þeim sem staðsettir eru í hverfinu Brovarí í austurhluta Kænugarðs.

Er eldflaugunum til að mynda skotið frá hersveitum sem enn eru staðsettar innan landamæra Hvíta-Rússlands, sem eru svo gott sem einu stuðningsmenn stríðs Pútíns um þessar mundir.

Iskander-flaugar geta á skömmum tíma tekið niður heilu hverfin. Með tilkomu þessara árása er vart hægt að halda því fram að rússneska hernum sé ekki beint gegn almennum borgurum.

Tekið í notkun árið 2006

Eldflaugin dregur nafn sitt frá Alexander mikla, þekktasta hershöfðingja sögunnar, en NATO lætur sér þó nægja að kalla hana Steininn. Iskander-eldflaugakerfið var tekið í notkun árið 2006 og er það sagt eitt það hættulegasta sem Rússar geyma í vopnabúri sínu.

Um er að ræða öfluga skammdræga eldflaug, ekki ósvipaða þeim sem flutt geta kjarnavopn, og er henni skotið á loft frá til þess gerðum trukki.

Upphaflega var hún hönnuð til að granda skotmörkum á borð við eldflauga- og loftvarnakerfi, stórskotaliðssveitir og hernaðarlega mikilvæg mannvirki eins og herstöðvar.

Iskander-skottrukkur á ferð fyrir utan Moskvu.
Iskander-skottrukkur á ferð fyrir utan Moskvu. AFP

Nær óstöðvandi 700 kílóa sprengihleðsla

Um borð í hverjum skottrukki eru tvær rúmlega sjö metra langar eldflaugar sem flutt geta allt að 700 kílóa sprengihleðslu 500 kílómetra leið.

Eftir að skottrukknum er lagt tekur það stjórnendur hans einungis sextán mínútur að skjóta fyrstu eldflauginni á loft. Einni mínútu síðar er svo hægt að endurtaka leikinn.

Iskander-flaug ferðast á yfir 2.000 metra hraða á sekúndu í átt að skotmarki sínu og er nær óstöðvandi á leið sinni þangað. Ástæðan fyrir því er sú að flaugin getur snögglega breytt stefnu sinni á flugi og þannig brugðist við varnarvopnum.

Vert er að geta þess að Iskander er flokkað sem eitt af hinum svokölluðu fælingarvopnum Rússlands, en í þeim hópi eru einnig kjarnavopn landsins.

Ástæðan fyrir þessari flokkun er sú að sérfræðingar segja eldflaugakerfið eitt og sér duga til að auka mátt hvaða hers sem er. Og þessu beita Rússar nú gegn evrópskri stórborg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert