Áhafnar Moskvu saknað

Mikið eyðilagt hús í úthverfi í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Mikið eyðilagt hús í úthverfi í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. AFP

Stjórnvöld í Rússlandi neituðu í dag að svara spurningum um það hvort og þá hversu mikið manntjón varð þegar rússneska flugskeytaskipið Moskva sökk í síðustu viku. Foreldrar áhafnarmeðlima hafa krafist svara um það hvar börn þeirra séu niðurkomin.

Skipið fór á kaf eftir sprengingu sem úkraínsk yfirvöld segja að hafi orðið vegna árangursríks skots flugskeytis en þau rússnesku taka fyrir það og segja að hergögn á skipinu sjálfu hafi sprungið.

680 geta starfað á skipinu

Rússnesk yfirvöld segja að áhöfnin hafi verið færð af skipinu áður en það sökk en gáfu ekki út frekari upplýsingar. Allt að 680 áhafnarmeðlimir komast fyrir á skipinu.

Eftir að Moskva sökk hafa foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir þeirra sem voru í áhöfninni sagt á samfélagsmiðlum að börn þeirra séu týnd og að þau þurfi svör.

Dmitry Peskov, talsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, sagði í samtali við AFP í dag að hann gæti ekki gefið út neinar upplýsingar um málið. 

„Öll samskipti fara fram í gegnum varnarmálaráðuneytið,“ sagði Peskov. „Allar upplýsingar sem snerta þetta mál verða gefnar út af varnarmálaráðuneytinu og við höfum ekki heimildir til að gefa neitt slíkt út.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka