Drottningin mætir ekki á stórtónleika í kvöld

Tónleikarnir við Buckinghamhöll verða stjörnum prýddir.
Tónleikarnir við Buckinghamhöll verða stjörnum prýddir. AFP/ Chris Jackson

Diana Ross og George Ezra verða aðalnúmerin á stjörnu prýddum tónleikum við Buckinghamhöll í kvöld, í tilefni 70 ára krýningarafmælis Elísabetar Englandsdrottningar. Andrea Bocelli, Alicia Keys og Adam Lambert verða einnig meðal þeirra sem troða upp. BBC greinir frá.

Þá munu bæði Karl Bretaprins og Vilhjálmur prins, sonur hans, flytja ræður á viðburðinum og heiðra drottninguna. En meðlimir konungsfjölskyldunnar munu taka þátt í hátíðahöldum vegna krýningarafmælisins víða í dag, meðal annars í Cardiff og Belfast.

Gert ráð fyrir 22 þúsund gestum

Ekki er gert ráð fyrir því að Elísabet drottning verði sjálf viðstödd tónleikana í kvöld en hún hefur glímt við skerta hreyfigetu síðustu mánuði. Viðburðahöldurum hafði verið greint frá því fyrirfram að drottningin yrði að velja á milli þeirra viðburða sem hún myndi sækja.

Hún gat til að mynda ekki sótt neina viðburði í gær eftir að hafa upplifað vanlíðan á fimmtudag. Í dag treysti hún sér ekki heldur til að mæta á Derby kappreiðarnar í Epsom, en hún fylgist í staðinn með þeim í sjónvarpinu, að kom fram í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir um 22 þúsund gestum á tónleikana í kvöld en þeir verða í beinni útsendingu á BBC One og því er líklegt að að milljónir til viðbótar njóti skemmtunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert