40 stiga hiti í Frakklandi og á Spáni

Gestir Hellfest tónlistarhátíðarinnar í Clisson í Vestur Frakklandi kældu sig …
Gestir Hellfest tónlistarhátíðarinnar í Clisson í Vestur Frakklandi kældu sig niður í gosbrunni í dag. AFP/ Loic VENANCE

Víða hafa hitamet verið slegin í Evrópu í hitabylgju sem geisar þar nú en hiti hefur náð 40 stigum í Frakklandi og á Spáni.

Vísindamenn hafa varað við því að hitabylgjur muni koma fyrr á árinu og gætu orðið öflugri en venjulega vegna loftlagsbreytinga.

Á Spáni geisa skógareldar og hafa 9.000 hektara af skóglendi brunnið á Sierra de la Culebra landsvæðinu á Norðvestur-Spáni og hafa þar 200 manns þurft að yfirgefa heimili sín. Rýma þurfti Puy du Fou skemmtigarðinn miðsvæðis á Spáni vegna elda sem voru í grennd við garðinn. Yfir 3.000 manns voru á svæðinu.

Víðast hvar á Spáni var hitinn í dag yfir 35 stig en hann náði 40 stigum sums staðar á landinu.

Skólabörnum sagt að vera heima

Á suðvestur Frakkland var spáð 40 stiga hita í dag og börnum á skólaaldri var sagt að vera heima hjá sér vegna hitans.

„Ekki hefur hitabylgja verið skráð í Frakklandi svona snemma árs síðan árið 1947,“ segir Matthieu Sorel, veðurfræðingur hjá Veðurstofu franska ríkisins.

Hann segir hitabylgjuna vera merki loftlagsbreytinga og telur líklegt að mörg hitamet verði slegin í landinu, áður en hún muni byrja að hjaðna á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert