Spilafíknin varð lögregluþjóni að falli

Lögregluþjónninn fyrrverandi réð ekki við spilafíkn sína sem að lokum …
Lögregluþjónninn fyrrverandi réð ekki við spilafíkn sína sem að lokum kostaði hann starfið og þriggja mánaða skilorðsdóm. Ljósmynd/Dansk MisbrugsBehandling

Danskur fyrrverandi lögregluþjónn um þrítugt hlaut í dag þriggja mánaða skilorðsdóm fyrir Héraðsdómi Frederiksberg fyrir að stela greiðslukortum sex samstarfsmanna sinna úr búningsherbergi lögreglustöðvarinnar í Bellahøj í norðvesturhluta Kaupmannahafnar á meðan hann starfaði enn sem lögregluþjónn.

Var maðurinn haldinn þungri spilafíkn, „ludomani“ sem Danir kalla, eins og hann greindi frá fyrir dómi, en kortin notaði hann til að greiða fyrir knattspyrnugetraunaseðla sem voru þungamiðjan í spilafíkn hans.

„Ég tók kortin vegna þess að ég var haldinn mikilli fíkn. Ég var spilafíkill. Svo langt leiddur var ég að þetta virtist eina færa leiðin,“ sagði maðurinn við aðalmeðferð málsins. Kvaðst hann alla ævi hafa verið mikill áhugamaður um íþróttir, einkum knattspyrnu. Sá áhugi hafi fljótt getið af sér íþróttaveðmál og tólf ára gamall hafi hann verið farinn að stunda getraunirnar.

Þá kastaði tólfunum

„Ég spilaði öll unglingsárin og svo fór að halla undan fæti. Þegar ég varð 18 ára kastaði tólfunum,“ segir hann frá, „þá fékk ég aðgang að sparifénu mínu, 70.000 krónum [1,3 milljónum íslenskra króna á gengi dagsins í dag] sem var eins og bensín á bál. Þá tóku við tíu ár af spilafíkn.“

Sagðist lögregluþjónninn fyrrverandi hafa reynt að dylja fíkn sína en 70.000 krónurnar hafi gengið hratt til þurrðar. Foreldrar hans komust þá að hinu sanna og honum var útveguð fagleg aðstoð oftar en einu sinni en ávallt leitaði hann í sama farið. Hann fékk þó inni í lögregluskólanum og lauk námi.

Eftir að hann hóf störf í lögreglunni hófst þjófnaðurinn sem leiddi að lokum til þess að samstarfsfólk hans tók að fyllast grunsemdum og hann var handtekinn 29. september 2019. Málið velktist um kerfið í heimsfaraldrinum þar til það var loks tekið til dómsmeðferðar og Jette Malberg saksóknari krafðist þriggja til fjögurra mánaða óskilorðsbundins fangelsis, þjófnaðartilfellin hafi verið mörg og ákærði gengið skipulega til verks.

Lagði spilin á borðið

„Þetta er trúnaðarbrot sem tekur út yfir allan þjófabálk, að fólk geti ekki geymt eigur sínar í búningsklefanum,“ sagði Malberg við réttarhöldin. „Maður getur rétt ímyndað sér hvernig hafi verið að mæta í vinnuna á þessu tímabili. Vantraust og þungbúið andrúmsloft milli vinnufélaga. Það er nokkuð sem leiða ætti til refsiþyngingar,“ sagði saksóknari.

Síðan málið kom upp 2019 hefur maðurinn leitað sér hjálpar og starfar nú sjálfur sem meðferðarfulltrúi á stofnun sem greiðir leið spilasjúklinga til eðlilegs lífs. Í skjóli þess krafðist verjandi hans, Lene Østerberg, skilorðsdóms og fékk.

„Skjólstæðingur minn gerir sér vel ljóst hve sorglega vaxið mál þetta er. Hann hefur lagt spilin á borðið og útskýrt vandræðin í kringum andlegt ástand sitt og spilafíkn,“ sagði verjandinn við aðalmeðferðina. Nú hefði skjólstæðingurinn hins vegar séð villu síns vegar og ynni nú við að hjálpa öðrum í sömu sporum.

Féllst héraðsdómari á röksemdir Østerberg en tók jafnframt fram að málið væri „mjög alvarlegt“, meðal annars hefði ákærði stolið frá handteknum manni. „Persónulegar aðstæður þínar gera það hins vegar að verkum að ég tel óskilorðsbundið fangelsi ekki nauðsynlegt,“ sagði dómarinn við sakborning áður en hann kvað dóm sinn upp.

Hefur ákæruvaldið nú tvær vikur til að taka ákvörðun um hvort það hyggist áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Eystri landsréttar.

DR

DRII (frétt af réttarhöldunum í vor)

TV2 Nord fjallaði um spilafíkn í sumar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert