40 milljarðar til að hafa áhrif á stjórnmálamenn

Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig opinberlega um þessar ásakanir. …
Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig opinberlega um þessar ásakanir. Rússar hafa aftur á móti sakað Bandaríkin ítrekað um að hafa afskipti af öðrum ríkjum. Á myndinni má sjá Vladimír Pútín Rússlandsforseta. AFP

Bandarísk yfirvöld halda því fram að Rússar hafi varið rúmum 300 milljónum dala, ríflega 40 milljörðum kr., frá árinu 2014 til að hafa áhrif á stjórnmálamenn í yfir 24 löndum. 

Bandaríska utanríkisráðuneytið byggir þessar upplýsingar á skýrslum bandarískra leyniþjónustustofnana, sem búið er að létta trúnaði af, en gögnin voru birt í gær. 

„Við teljum að þetta sé aðeins toppurinn á ísjakanum,“ segir hátt settur bandarískur embættismaður sem starfar innan raða ríkisstjórnar Bandaríkjanna. 

Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið opinberlega. Aftur á móti hafa Rússar margsinnis sakað Bandaríkin um að skipta sér af málefnum annarra ríkja, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.

Embættismaðurinn segir að bandaríska leyniþjónustan telji að ofangreind fjárhæð sé varlega áætluð. Líklegt sé að rússnesk stjórnvöld hafi fært til hærri upphæðir með leynd.

Ekki er tekið fram um hvaða ríki og hvaða stjórnmálamenn sé að ræða. En bent er á að þetta taki til fjögurra heimsálfa. Umræddur embættismaður segir að leyniþjónustan eigi nú í viðræðum við umrædd ríki um þessar meintu leynilegu fjármögnun Rússa, en þau samtöl eru bundin trúnaði. 

Annar bandarískur embættismaður, sem þekkir til málsins, heldur því fram að Rússar hafi eytt um 500.000 dölum, eða sem samsvarar um 68 milljónum kr., til að styðja Lýðræðisflokkinn, sem er miðhægriflokkur, í kosningum í Albaníu árið 2017. Rússar hefðu einnig stutt flokka og frambjóðendur fjárhagslega í Bosníu, Svartfjallalandi og á Madagaskar að því er segir í umfjöllun AFP. 

Þá er því haldið fram að yfirvöld í Rússlandi hafi notað Brussel, höfuðborg Belgíu, sem miðstöð fyrir sjóði og félög í þeim tilgangi að styðja frambjóðendur sem eru lengst til hægri í stjórnmálum. Tilbúin fyrirtæki eru sögð hafa verið notuð til að styrkja evrópska flokka og til að kaupa áhrif. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert