Erdogan segir Pútín reiðubúinn að stöðva stríðið

Erdogan og Pútín takast í hendur á fundi í ágúst.
Erdogan og Pútín takast í hendur á fundi í ágúst. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kveðst trúa því að Vladimír Pútín Rússlandsforseti vilji binda enda á stríðið sem hann hóf í Úkraínu. Erdogan heldur því fram að vænta megi þess að slík skref verði stigin. 

Erdogan ræddi nýverið við Pútín og Tyrklandsforsetinn segist hafa skynjað að Pútín væri reiðubúinn að stöðva stríðsátökin, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins. 

Í þessum mánuði hafa úkraínskar hersveitir háð árangursríka gagnsókn og hafa náð að endurheimta stór landsvæði sem Rússar höfðu hernumið á undanförnum mánuðum. 

Erdogan gaf til kynna að staðan væri mjög vandasöm fyrir Rússa. Hann sagði jafnframt að hann hefði átt langt og ítarlegt samtal við Pútín á leiðtogafundi í Úsbekistan í liðinni viku. Í samtali við bandarísku fréttastöðina PBS sagði Erdogan að hann hefði skynjað á Pútín að hann vildi ljúka átökunum sem fyrst. 

„Hann er í raun að sýna mér að hann sé reiðubúinn að binda enda á þetta eins fljótt og auðið er,“ sagði Erdogan. „Ég varð þess áskynja, því eins og hlutirnir hafa verið að þróast undanfarið þá hefur það valdið talsverðum vandræðum.“

Þá sagði Erdogan að Rússar og Úkraínumenn myndu brátt skiptast á 200 gíslum, eins og hann orðaði það. Tyrklandsforsetinn útskýrði það þó ekki nánar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert