Minnst einn látinn eftir árásina

Frá vettvangi í morgun.
Frá vettvangi í morgun. AFP/Sergei Supinskí

Að minnsta kosti einn lést í drónaárás á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, í morgun og þrír særðust. Þetta segir Vítalí Klit­skó, borg­ar­stjóri Kænug­arðs.

„Lík einnar konu var grafið úr rústum byggingar í Sjevtjenkivskí-hverfinu, þar sem sprenging átti sér stað vegna drónaárásar. Önnur manneskja var undir rústunum. Þrír hafa verið lagðir inn á spítala,“ skrifaði Klitskó á Telegram.

Fimm sprengingar heyrðust í morgun eftir að svokallaðir Kamikaze-drón­ar flugu inn í miðborg Kænugarðs.

Drónarnir eru einnota fyr­ir­bæri sem eyðileggj­ast eft­ir að hafa gert árás á skot­markið. Þeir draga nafn sitt af sjálfs­vígssveit­um jap­anska hers­ins í seinni heims­styrj­öld­inni en Kamikaze-flug­menn fórnuðu sér með því að fljúga á skot­mörk and­stæðinga sinna.

Borgarstjórinn segir sprengingarnar hafi skemmt íbúðabyggingar og að eldur hafi komið upp. Þá var greint frá því í morgun að tveir væru fastir undir rústum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert