„Viggo, ég biðst afsökunar“

Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen er …
Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen. Kristiansen er í dag 43 ára gamall. Fyrsta júní í fyrra gekk hann út úr Ila-fangelsinu þar sem hann sat saklaus í tuttugu og hálft ár. Bótakrafa hans mun ekki eiga sér fordæmi í sögu Noregs hvað miska- og skaðabætur til einstaklings snertir. Ljósmynd/Úr einkasöfnum

Emilie Enger Mehl, dómsmálaráðherra Noregs, bað Viggo Kristiansen afsökunar í gærkvöldi á því að hann sat hálfa ævi sína í fangelsi, ranglega dæmdur sekur fyrir aðild sína að Baneheia-málinu sem mbl.is hefur fjallað töluvert um. „Viggo, ég biðst afsökunar,“ sagði ráðherra í ávarpi sem sjónvarpað var á norska ríkisútvarpinu NRK.

Fyrsta júní í fyrra gekk Kristian­sen út úr Ila-fang­els­inu á reynslu­lausn eft­ir að hafa setið þar í rúm­lega 20 og hálft ár. Hann er nú 43 ára og má því segja að nánast hálf ævi hans hafi liðið bak við lás og slá. Nú hefur hann formlega verið sýknaður eftir að endurupptökunefnd féllst loks á að taka mál hans upp á nýjan leik í kjölfar fjölda beiðna frá honum.

Ljóst þykir nú, eftir erfðaefnisrannsóknir þar sem tækninni hefur fleygt fram síðan árið 2000, að Kristiansen bar enga sök í máli stúlknanna tveggja, Lenu Slø­ge­dal Paul­sen, 10 ára, og Stine Sofie Sør­strøn­en, 8 ára, sem mættu grimmilegum örlögum í Kristiansand vorið 2000, þar sem þeim var nauðgað, þær stungnar til bana og lík þeirra falin í gjótu með hendur bundnar aftur fyrir bak.

Fullyrti að Kristiansen hefði lagt á ráðin

Jan Helge Andersen, sem þegar hefur afplánað dóm fyrir að myrða aðra stúlkuna og naut vægari refsingar fyrir að benda á Kristiansen, verður hins vegar að líkindum ákærður á ný og, verði hann sekur fundinn, má búast við að sitja inni í tvö ár, mismuninn á þeim 19 árum sem hann hlaut og 21 árs dómi, þyngstu refsingu sem norsk lög leyfa.

Fullyrti Andersen fyrir dómi að Kristiansen hefði lagt á ráðin um atlöguna að stúlkunum og sannfært Andersen um að taka þátt í ódæðinu. Lögðu dómarar og lögregla trúnað á framburð hans.

John Christian Elden lögmaður ræddi við mbl.is um bótakröfur í málinu í sumar, en hann hefur komið að svipuðu máli þar sem Fritz Moen sat saklaus í fangelsi í átján og hálft ár fyrir tvö manndráp sem síðar kom í ljós að hann var saklaus af.

Taldi Elden að Kristiansen gæti reiknað með 20 milljónum norskra króna, andvirði 270 íslenskra milljóna, en Bjørn André Gulstad, lögmaður Kristiansens, stefnir hærra en það og sagði í viðtali við NRK í gær að útreikningur bótakröfu Kristiansens einn og sér tæki hátt í ár, þar verði allt reiknað inn, miski og skaðabætur fyrir að hverfa af vinnumarkaði í 20 ár. Ofan á grunnupphæðir mun Gulstad krefjast dráttarvaxta nánast frá aldamótum af norska ríkinu og auk þess krefjast bóta úr hendi Andersens fyrir rangar sakargiftir.

NRK

Aftenposten

VG

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert