Náði ekki kjöri í 12. og 13. umferð

Kevin McCarthy talar við Daniel Webster frá Flórída eftir 12. …
Kevin McCarthy talar við Daniel Webster frá Flórída eftir 12. umferð kosninganna, sem var betri fyrir McCarthy en dugði þó ekki að tryggja honum þingforsetasætið. AFP/Olivier Douliery

Kevin McCarthy, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, hefur færst nær því að ná kjöri sem forseti deildarinnar, en hann vantar nú fjögur atkvæði til þess. 

Um er að ræða eina lengstu rimmu um forsetakjörið í sögu Bandaríkjaþings, þar sem venjan er sú að það sé útkljáð í fyrstu atrennu. Fimm atkvæðagreiðslur fóru fram í gær, og voru þær þá ellefu í heildina, en í öllum atkvæðagreiðslunum ellefu var hópur 20 þingmanna repúblikanaflokksins, sem neitaði að styðja McCarthy til embættisins. 

Það dró til tíðinda í kvöld þegar 13 af þeim 20 sem lagst hafa gegn McCarthy létu undan, en heilmiklar samningaviðræður hafa farið fram á bak við tjöldin. 

McCarthy þarf 218 atkvæði til að ná kosningu og í 12. umferðinni fékk hann 213 atkvæði og var það í fyrsta sinn sem hann fékk fleiri atkvæði en Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata sem fékk nú 211 atkvæði. Repúblikanarnir Jim Jordan og Kevin Hern fengu einnig atkvæði, og fékk Jordan fjögur en Hern þrjú. 

McCarthy bætti svo við sig einu atkvæði til viðbótar í 13. umferðinni. 

Þingið er í lamasessi á meðan á kosningunni stendur og því liggur mikið á að niðurstaða fáist. Flestir stjórnmálaskýrendur vestanhafs telja að viðsnúningur nokkura andstæðinga McCarthy bendi til þess að hann muni enda á að fá þann stuðning sem hann þarf, en aðrir eins og Repúblikaninn Warren Davidson frá Ohio segja að McCarthy geti ekki fengið fleiri atkvæði.

Repúblikaninn Warren Davidson frá Ohio telur að talsvert þurfi að …
Repúblikaninn Warren Davidson frá Ohio telur að talsvert þurfi að gerast til að McCarthy nái tilteknum fjölda atkvæða, og er hann þó stuðningsmaður hans. AFP/Win McNamee

Í viðtali við Fox News sagði Davidson að hann vissi ekki hvernig McCarthy ætti að geta náð í atkvæði þeirra repúblikana sem enn hafa ekki látið undan þrýstingnum. „Ég held að þeir séu harðákveðnir, en við spyrjum að leikslokum.“

Davidson sagði að eini möguleikinn sem hann sæi væri ef andstæðingar McCarthys myndu samþykkja að sitja hjá. „Það er í rauninni það eina sem ég sé í stöðunni,“ sagði hann og lýsti yfir áhyggjum yfir þessari stöðu og hvernig flokkurinn ætlaði að vinna saman eftir þessa tilfinningaþrungnu baráttu.

Matt Gaetz í ræðustól í dag þar sem hann fór …
Matt Gaetz í ræðustól í dag þar sem hann fór mikinn gegn McCarthy og hlaut baul fyrir vikið. APF/Win McNamee

Baulað á Gaetz 

Flórídamaðurinn Matt Gaetz hefur verið einn harðasti andstæðingur McCarthy og í viðtali við Laura Ingraham á Fox News í gærkvöldi sagðist hann hætta á þinginu ef McCarthy yrði kosinn. Í dag sagði hann í ræðustól að McCarthy hefði ekki unnið fyrir því að verða þingforseti og hann hefði ekki atkvæðin, og þá var baulað á hann. 

Nú er reynt að fá þá sem enn streitast á móti McCarthy til að sitja hjá, en slíkt lækkar þröskuld þeirra atkvæða sem hann þarf að fá til þess að ná kjöri. Takist það ekki í kvöld gæti farið svo að þingfundi verði frestað til mánudags og verða þá örugglega mörg símtöl og samningaviðræður milli repúblikana um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert