Æfur yfir föstum sófa

Hingað og ekki lengra. Sófinn pikkfastur í stiga Ansells sem …
Hingað og ekki lengra. Sófinn pikkfastur í stiga Ansells sem var svo heppinn að fjórir hópverjar Facebook-hóps nágrennisins mættu á staðinn og komu sófanum leiðar sinnar. Ljósmynd/Luke Ansell

„Þetta var hrein martröð. Þeir kröfðust þess meira að segja að ég skrifaði undir yfirlýsingu um að hann hefði verið afhentur. Það var aldeilis uppákoma,“ segir Luke Ansell, eigandi glænýs lúxussófa, 2.000 breskra punda virði eða 356.000 króna.

Sófann keypti hann vefleiðis fyrir tæpum fjórum mánuðum hjá designersofas4u.co.uk og ætlar honum sess í nýju húsi sínu í Bournemouth. Ansell pantaði heimsendingu og bað um að sófinn yrði borinn upp á efri hæð.

Vildi ekki betur til en svo, þegar sófinn kom 19. janúar, að burðarmenn söluaðilans festu hann kirfilega í miðjum stiganum og tókst um leið að skemma klæðningu á veggnum og sófann. Þegar ekkert gekk að losa sófann báru sendlarnir við tímaskorti og fleiri verkefnum og sögðust einfaldlega þurfa að fara.

Indælir þegnar samfélagsins

Skildu þeir sófann þar með eftir fastan í miðjum stiga Ansells sem reytti hár sitt í bræði og birti mynd af strönduðu húsgagninu í Facebook-hópi nágrennisins. Ekki var að spyrja að hjálpsemi grannanna því fjórir sjálfboðaliðar, „indælir þegnar samfélagsins“ eins og Ansell kallar þá, mættu á staðinn, losuðu sófann og komu honum á sinn stað.

Talsmenn designersofas4u.co.uk, sem er til húsa í Blackburn, tjáðu breska ríkisútvarpinu BBC að fyrirtækið hefði hafið rannsókn á atvikinu en þó mótmælti það framburði kaupandans um atburðarásina. Ekkert af því sem Ansell lýsti hefði í raun gerst, sófinn hefði verið skilinn eftir á öruggum stað á stigapallinum fyrir ofan stigann.

Býðst fyrirtækið þó til þess að senda Ansell nýjan sófa til jarteikna um velvilja eða „as a goodwill gesture“ eins og það er orðað í tölvupósti til hans.

BBC
Metro
Yahoo News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert