Páfinn biður fyrir þeim sem fórust við Grikkland

Frans páfi biður fyrir því fjölmarga farandfólki sem fórst, ástvinum …
Frans páfi biður fyrir því fjölmarga farandfólki sem fórst, ástvinum þess og öllum sem urðu fyrir áfalli vegna harmleiksins. Samsett mynd

Frans páfi er í miklu uppnámi vegna fiskibáts sem sökk við strendur Pelópsskaga á Grikklandi í gærkvöldi ofhlaðinn farandfólki. Óttast er að á annað hundrað manns hafi farist.

Hans heilagleiki Frans páfi biður fyrir því fjölmarga farandfólki sem fórst, ástvinum þess og öllum sem urðu fyrir áfalli vegna harmleiksins, sagði Pietro Parolin, ráðherra Vatíkansins, í símskeyti til æðsta prests Grikklands.

Þriggja daga þjóðarsorg

Að minnsta kosti 78 flótta­menn fór­ust og um 104 hef­ur verið bjargað. Mik­ill vind­ur hef­ur hamlað björg­un­araðgerðum, að sögn strand­gæsl­unn­ar, en þær eru enn í full­um gangi.

Skipið var 25-30 metra langt og dekk þess var fullt af fólki. Gert er ráð fyrir að önnur rými skipsins hafi verið jafn full, að sögn talsmanns strandgæslunnar.

Sagði hann í samtali við AFP-fréttaveituna að tvö varðskip, þyrla og sex önnur skip á svæðinu, leituðu á hafsvæðinu vestur af Pelópsskaga en svæðið er einn dýpsti hluti Miðjarðarhafs.

„Þetta gæti verið versti harmleikur á sjó í Grikklandi undanfarin ár,“ sagði Stella Nanou hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna við ríkisútvarpið gríska, ERT.

Grikkland hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg og saksóknara hefur verið falið að rannsaka málið.

Að sögn embættismanna voru um 30 manns lagðir inn á …
Að sögn embættismanna voru um 30 manns lagðir inn á sjúkrahús með lungnabólgu, ofþornun og þreytu en eru ekki í bráðri lífshættu. AFP/Angelos Tzortzinis

750 manns um borð og 100 börn niðri í lest

Eftirlitsflugvél evrópsku Frontex stofnunarinnar kom auga á skipið síðdegis á þriðjudag en farþegarnir neituðu allri aðstoð. Yfirvöld hafa sagt að svo virðist sem skipið hafi farið frá Líbíu og verið á leið til Ítalíu.

Ilias Siakantaris, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði á miðvikudag að óstaðfestar fregnir hermdu að allt að 750 manns væru um borð í skipinu. Vél skipsins gaf sig á þriðjudagskvöld og skipinu hvolfdi síðar, sagði Siakantaris, og sökk á um 10 til 15 mínútum. Landhelgisgæslan bætti við að enginn um borð væri í björgunarvesti.

Einn þeirra sem bjargaðist sagði sjúkrahúslæknum í Kalamata að hann hefði séð hundrað börn niðri í lest skipsins, að því er fram kom í fréttaflutningi ríkisútvarpsins ERT.

„Röddin ómar í eyrum mér“

„Ungur maður fór að gráta og sagði, „ég þarf mömmu.“ Röddin ómar í eyrum mér og mun alltaf óma þar,“ sagði Ekaterini Tsata, hjúkrunarfræðingur á vegum Rauða krossins, við AFP.

Þeir sem lifðu af eru aðallega frá Sýrlandi, Egyptalandi og Pakistan, að sögn strandgæslunnar og eru tímabundið vistaðir í hafnargeymslu. Grísk yfirvöld taka af fólkinu skýrslu og leita hugsanlegra smyglara meðal þess.

Að sögn embættismanna voru um 30 manns lagðir inn á sjúkrahús með lungnabólgu, ofþornun og þreytu en eru ekki í bráðri lífshættu.

Daniel Esdras, starfandi ráðherra fólksflutninga, sagði við ríkisútvarpið ERT að þeir sem lifðu af yrðu fluttir í flóttamannabúðir nálægt Aþenu, vonandi síðdegis í dag eða á morgun.

Grikkland hefur verið ásamt Ítalíu og Spáni einn helsti lendingarstaður fólks sem reynt hefur að komast til Evrópu frá Afríku og Miðausturlöndum.

Í apríl 2015 fórust á níunda hundrað farandverkamenn á togara sem sökk í Miðjarðarhafið, í augsýn frá portúgölsku björgunarskipi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert