Valdarán í Gabon

Herinn hefur framið valdarán í Gabon í Vestur-Afríku. Í sjónvarpsávarpi greindu valdaræningjarnir frá því að Ali Bongo Ondimba forseti sé í stofufangelsi. 

Ali Bongo er í stofufangelsi, umkringdur fjölskyldu og læknum,“ sagði í ávarpinu. 

Yfirvöld í Rússlandi og Frakklandi hafa lýst yfir áhyggjum vegna ástandsins í ríkinu en Gabon fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1960.

Ondimba tók við embætti forseta árið 2009 eftir að faðir hans, Omar Bongo, lést. Hann hafði gegnt embætti forseta sleitulaust frá árinu 1967. 

Ali Bongo Ondimba tók við embætti forseta árið 2009.
Ali Bongo Ondimba tók við embætti forseta árið 2009. AFP/Wils Yanick Maniengui

Ondimba er 64 ára gamall og sóttist eftir þriðja kjörtímabilinu í forsetakosningum sem fóru fram á laugardaginn var. 

Kosningayfirvöld sögðu að Ondimba hafi unnið kosningarnar með 64,27% atkvæða. Um klukkustund síðar ávarpaði herinn þjóðina í sjónvarpi og sagði að hann myndi binda enda á stjórnartíð forsetans. 

Um er að ræða sjöunda valdaránið í Afríku á þremur árum, nú síðast í júlí í Níger. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert