Drekka minna í erfiðu árferði

Neysla áfengis í Svíþjóð hefur dregist saman um 10% undanfarinn …
Neysla áfengis í Svíþjóð hefur dregist saman um 10% undanfarinn áratug. Ljósmynd/Colourbox

Áfengisneysla í Svíþjóð dróst saman um 2,7% í fyrra borið saman við árið á undan. Þetta er mesti samdráttur í neyslu áfengis í landinu í áratug, sé tímabil kórónuveirufaraldursins undanskilið. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem byggir á neyslu landsmanna sem eru 15 ára og eldri, en meðalneyslan mældist um 8,6 lítrar á mann árið 2023. 

Neyslan hefur ekki dregist meira saman frá árinu 2014, sé árið 2020 undanskilið vegna kórónuveirufaraldursins.

„Þetta sýnir að efnahagsástandið árið 2023 hafði einnig áhrif á áfengiskaup,“ segir Björn Trolldal, hjá CAN (Centralförbundet för alkohol- och narkotikaupplysning) sem vann að gerð rannsóknarinnar. 

Helmingur áfengis fluttur inn frá Þýskalandi

Hann bætti við að veiking sænsku krónunnar og hækkun olíuverðs hafi einnig haft áhrif á innflutning til landsins. Það þýddi að Svíar keyptu minna af áfengi frá Þýskalandi, sem nemur um helmingi alls innflutnings á áfengi til landsins. 

Þá mældist 0,3% efnahagssamdráttur í Svíþjóð, sem er það ríki innan Evrópusambandsins sem stóð einna veikast á liðnu ári. Þar varð sænski seðlabankinn að hækka stýrivexti til að hafa taumhald á verðbólgunni. 

Fleiri versluðu í Systembolaget

Í Svíþjóð ríkir einokunarsala á áfengi, fyrir utan bari og veitingastaði, þar sem Svíar geta aðeins keypt áfengi í gegnum sænskar vínverslanir, sem nefnast Systembolaget. Einnig er heimilt að kaupa áfengi af seljendum í dreifbýlli héruðum sem hafa hlotið sérstakt leyfi til áfengissölu.  

Um 71% af heildarneyslu ársins 2023 má rekja til áfengis sem var keypt í verslunum Systembolaget. Það er 64,8% söluaukning miðað við árið 2019, að því er segir í rannsókninni. 

Þá kemur fram í umfjöllun AFP að á undanförnum árum hafi neysla áfengis verið að dvína í Svíþjóð, en frá árinu 2014 hefur neyslan dregist saman um 10%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert