Macron boðar aðgerðir gegn glæpasamtökum í Marseille

Emmanuel Macron gekk um La Castellane hverfið í Marseille í …
Emmanuel Macron gekk um La Castellane hverfið í Marseille í morgun. AFP

Emmanuel Macron forseti Frakklands hét því að gripið yrði til umfangsmikilla aðgerða gegn fíkniefnasölum í borginni hafnarborginni Marseille við Miðjarðarhaf en hann kom í óvænta heimsókn til borgarinnar í morgun. 

„Í Marseille og öðrum borgum í Frakklandi höfum við gripið til víðtækra aðgerða til að binda enda á fíkniefnasmygl og tryggja lýðræðislega skipan mála," skrifaði Macron á samfélagsmiðilinn X eftir að hann kom til borgarinnar.

Að sögn franskra fjölmiðla krefjast þessar aðgerðir þess að þúsundir lögreglumanna verði fluttar vikulega til borgarinnar til að koma böndum á ástandið í borginni en blóðug átök glæpahópa um fíkniefnamarkaðinn í Marseille náðu nýjum hæðum á síðasta ári þegar 49 létu lífið og 123 særðust. Fjórir þeirra, sem létust höfðu engin tengsl við glæpastarfsemina heldur urðu fyrir skotum í skotbardögum glæpahópa. 

Macron hóf heimsóknina með því að ganga um hverfið La Castellane þar sem ástandið hefur verið einna verst. Sagði hann að aðgerðirnar muni taka nokkrar vikur. 

„Markmiðið er að reyna að uppræta samtökin og fíkniefnasöluna og fjarlægja þá sem hafa valdið þessu ástandi," sagði hann. 

Felix Bingui, leiðtogi eins af stærstu glæpahópunum í Marseille var handtekinn í borginni Casablanca í Marokkó í síðustu viku. Binqui er talinn stýra samtökunum Yoda sem hefur barist við önnur glæpasamtök, DX Mafia, um fíkniefnamarkaðinn í borginni.

Frönsk stjórnvöld leggja áherslu á að koma á lögum og reglu í Marseille fyrir ólympíuleikana sem haldnir verða í París í sumar.  Siglingakeppni leikanna verður í Marseille og einnig er gert ráð fyrir að leikir í knattspyrnukeppninni fari fram á Velodrome leikvanginum í borginni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert