Síður áhugavert að flytja orkuna úr landi en nýta hana hér

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra sagði á Alþingi í dag að sér fyndist mikilvægt að athugaðir verði möguleikar á lagningu sæstrengs milli Íslands og Noregs. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að skrifað hefur verið undir samning milli Landsvirkjunar og norsku fyrirtækjanna Statoil og Statnett um gerð hagkvæmniathugunar á lagningu slíks sæstrengs.

Norðmenn höfðu frumkvæðið að þessum samningi en þeir hafa áhuga á að kaupa endurnýjanlega raforku frá Íslandi. Landsvirkjun mun leggja til upplýsingar um nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi og Norðmenn munu skoða markaðsmál fyrir sæstreng í Noregi og jafnvel víðar. Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, vakti máls á þessu í upphafi þingfundar í dag.

Valgerður tók fram að fyrrgreindur samningur milli Landsvirkjunar og norsku fyrirtækjanna fæli ekki í sér neinar skuldbindingar af hálfu Landsvirkjunar. „Hér er eingöngu verið að athuga möguleika á virkjunarkostum, ásamt þeim fyrirtækjum sem hér hafa verið nefnd Statoil og Statnett. Og það tel ég vera mjög mikilvægt til þess að stjórnvöld geti mótað stefnu á þessu sviði.“ Ráðherra minnti þó á að samkvæmt samningnum eigi athuguninni ekki að vera lokið fyrr en eftir hálft ár.

„Mér finnst aðalatriðið vera að nýta okkar endurnýjanlegu orku hér á Íslandi og mér finnst miklu síður áhugavert að flytja hana úr landi til atvinnuuppbyggingar í öðrum löndum. En ég get hins vegar ekki verið á móti því að þetta sé skoðað, eins og nú hafa verið lögð drög að," sagði Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert