Skaðabótakrafa Símans ekki nógsamlega reifuð í málinu og við flutning þess

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is

Dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þótti ekki hægt að taka til greina rúmlega 246 milljóna skaðabótakröfu Landssíma Íslands vegna fjárdráttar fyrrverandi gjaldkera Símans þar sem málið hefði ekki verið fyllilega reifað með tilliti til kröfunnar.

Skaðabótakrafa Símans beindist að öllum fimm sem ákærð voru í málinu en þó með mismunandi hætti. Beindist hún í öllum tilvikum að Sveinbirni Kristjánssyni, fyrrverandi aðalgjaldkera, en í öðrum tilvikum að honum og meðákærðu sameiginlega.

Sveinbjörn viðurkenndi bótaskyldu vegna fjárdráttarins en gerði fyrirvara um bótafjárhæð. Árni Þór, Kristján Ragnar og aðrir sakborningar voru sakfelldir fyrir hylmingu en neituðu allir bótaskyldu við meðferð málsins.

Við mat á því hvort skaðabótakrafa Landssímans væri í því horfi að unnt væri að dæma um hana segir dómari að fyrst sé til þess að líta að bótakrafan væri margskipt og næmi umtalsverðum fjárhæðum.

Í annan stað hefðu ákærðu krafist þess að bótafjárhæðir yrðu lækkaðar án þess þó að málið hafi verið flutt með þeim hætti að unnt væri að taka viðunandi afstöðu til slíkrar málsástæðu.

Að lokum lægi fyrir að umræddir fjármunir runnu meðal annars til tiltekinna einkahlutafélaga, en málið hafi ekki verið reifað um það atriði hvort Landssími Íslands hafi leitast við að takmarka tjón sitt að einhverju leyti, m.a. með kröfum gegn þessum félögum.

Með vísan til alls þessa var það niðurstaða dómsins að skaðabótakrafa Landssímans þurfi aðra og frekari umfjöllun en komið yrði við í þessu máli og var henni því vísað frá dómi.

Dómari segir að á grundvelli laga sé tjónþola unnt að koma að einkaréttarlegri kröfu í opinberu máli er stafar af þeirri háttsemi er til meðferðar hefur verið í sakamálinu. Skal dómari gefa tjónþola kost á að tjá sig um kröfuna og skýra hana ef slíkt getur orðið án verulegra tafa eða óhagræðis í máli. Telji dómari slíks málflutnings þörf um kröfuna, en ekki unnt að láta hann fram fara, skal vísa henni frá dómi.

mbl.is