Reglugerðarbreytingu þarf til að breyta greiðslu barnabóta

mbl.is/Þorkell

Margir hafa haft samband við fjármálaráðuneytið undanfarið og spurst fyrir um mánaðarlegar greiðslur barnabóta. Ríkisstjórnin kynnti um miðjan nóvember tillögur vegna heimila í landinu. Þar var m.a. kveðið á um að barnabætur yrðu greiddar út mánaðarlega, í stað þess að koma á þriggja mánaða fresti.

Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, bendir á að bæturnar séu greiddar út fyrirfram. Í nóvember lauk greiðslum fyrir þetta ár. Reglugerðarbreytingu þarf til að breyta fyrirkomulagi á greiðslu barnabótanna, sem og til að fella út heimild innheimtumanna til þess að skuldajafna barnabótum á móti öðrum skuldum, sem jafnframt var hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar. Maríanna segir að fyrsti mögulegi greiðsludagur mánaðarlegra barnabóta sé 1. febrúar. Ekki sé hægt að greiða þær í janúar þar sem miðað sé við staðgreiðslu á árinu á undan.

„Samþykkt ríkisstjórnarinnar hljóðaði upp á að það yrði greitt mánaðarlega, sem í sjálfu sér er einfalt í útfærslu. Hins vegar horfum við þá fram á það að barnafjölskyldur hafa fram til þessa fengið þrjá mánuði greidda 1. febrúar,“ segir hún. Verði þessu breytt fái fólk aðeins einn mánuð greiddan 1. febrúar. Líklegt sé að margir verði ósáttir við það að fá eina greiðslu í febrúar í stað þriggja. Febrúar sé líka sá mánuður sem sé erfiðastur fyrir fólk eftir jólin. Spurning sé hvort hagstæðara sé að núverandi fyrirkomulag um greiðslur á þriggja mánaða fresti verði áfram við lýði, en það sé ákvörðun ráðherra.

Hins vegar sé stefnt að því að ljúka breytingum varðandi skuldajöfnun fyrir 1. febrúar. Slíkt gæti haft áhrif hjá skuldurum 1. febrúar, þegar fyrstu greiðslur barnabóta berast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »